132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Áætlun og aðgerðir um varnir gegn fuglaflensu.

[15:47]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Hér er um að ræða afar athyglisvert mál. Það er hins vegar rétt að undirstrika það, eins og kom fram í máli hæstv. heilbrigðis- og landbúnaðarráðherra, að enn sem komið er er fyrst og fremst um dýrasjúkdóm að ræða. Við erum hins vegar með þann möguleika í huga að þessi dýrasjúkdómur gæti breyst yfir í sjúkdóm sem smitast á milli manna. Við erum þá kannski í fyrsta skipti í sögunni í færum til að fylgjast með því frá faraldursfræðilegu sjónarmiði hvernig slík breyting á sér stað. Það gæti verið afar lærdómsríkt fyrir heimsbyggðina alla að sjá hvernig það gerist, m.a. til að geta hugsanlega komið í veg fyrir slíkt síðar.

Hins vegar verðum við líka að hafa í huga að það er til fjöldi stofna af fuglaflensu. Áður hafa komið upp stofnar þar sem smit hefur borist frá fuglum í menn, eins og er tilfellið H5N1-stofninn án þess þó að úr því hafi orðið heimsfaraldur með smiti á milli manna. Því er rétt að fara hófstillt í viðbrögðin og gæta þess að ekki verði nein allsherjarhræðsla að ástæðulausu, koma upplýsingum á framfæri og framkvæma þær aðgerðir sem munu reynast okkur jákvæðar í framtíðinni líka, þegar við tökum á svipuðum vandamálum sem upp kunna að koma þó að þau séu ekki nákvæmlega eins. Það er greinilegt, og það er auðvitað ástæða til að hrósa opinberum stofnunum sem um þetta fjalla fyrir það, að almenningur er mjög vel að sér um þetta málefni, það kemur vel fram í skoðanakönnunum í blöðum. Ekki er um neina hræðslu að ræða en fólk veit af þessu og gætir þess að fara varlega (Forseti hringir.) ef það kemur að dauðum fuglshræum.