132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Áætlun og aðgerðir um varnir gegn fuglaflensu.

[15:54]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp og hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir greinargóð svör hans. Það sem kom m.a. fram í svari hæstv. heilbrigðisráðherra og skiptir máli er að eins og er og meðan ekki verður stökkbreyting erum við að tala um tvo aðskilda hluti, annars vegar flensu sem smitast á milli fugla og hins vegar heimsfaraldur inflúensu. Í báðum tilvikum þurfum við að vera með viðbragðsáætlun og þess vegna heyrir þessa umræða í rauninni bæði undir hæstv. heilbrigðisráðherra og landbúnaðarráðherra.

Í þessu samhengi langar mig aðallega að leggja áherslu á tvennt. Annars vegar þýðingu þess að hafa aðgengilegar upplýsingar, aðgengilegar öllum, eins og þær sem eru á heimasíðu sóttvarnalæknis með spurningum og svörum, spurningum sem brenna á fólki og það vill fá svör við. Hins vegar á gildi þess að málflutningur í þessu samhengi sé hófstilltur, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson lagði áherslu á í ágætri ræðu sinni. Vegna þess að menn þurfa að finna hinn gullna meðalveg, annars vegar í því að fólki finnist það öruggt og finni til öryggis gagnvart því að gripið hafi verið til allra þeirra varúðarráðstafana sem þörf er á og hins vegar að ekki sé gengið svo hart fram að það veki ótta og ugg í brjóstum fólks.

Mig langar í því samhengi að nefna að mér hefur fundist sóttvarnalæknir, meðal annarra, hafa gert þetta einstaklega vel þar sem hann hefur verið að kynna þetta mál. Síðan vil ég taka fram að hv. heilbrigðis- og trygginganefnd fékk sérstaka kynningu á viðbragðsáætlun vegna fuglaflensu og heimsfaraldurs inflúensu í heimsókn sinni til landlæknis á dögunum.

Frú forseti. Að lokum vil ég segja að mér finnst þetta vera mál sem sjálfsagt er að fjalla um í þingnefndum, bæði í landbúnaðarnefnd og í heilbrigðisnefnd og þó að þær funduðu saman, og við áttum okkur á hvernig að því er staðið og þá jafnframt hvernig kynna má það á annan hátt og gagngerðari fyrir landsmönnum.