132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Háskólar.

59. mál
[15:33]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég dreg ekki í efa að hv. þingmaður hafi haft verulega gott af því að fara til útlanda að læra sína fiskilífeðlisfræði. Ótal margir stúdentar og doktorsnemar geta sagt nákvæmlega það sama og tekið undir með hv. þingmanni. Ég held ekki að við getum nokkru sinni boðið upp á allar námsbrautir hugsanlegar í veröldinni á Íslandi. Ég er ekki haldin þeirri grillu, sannarlega ekki.

Hins vegar tel ég að tæknifræðin, sem var lokuð inni í einkaskólanum, Háskólanum í Reykjavík, í fyrra sé þannig grein að hún eigi að standa þeim til boða sem kjósa að læra í þjóðskóla, sem kjósa að læra án þess að þurfa að greiða fyrir það 220 þús. kr. á ári í skólagjöld. Við erum því aðeins kannski að tala um ólíka núansa.

Ég tel að þróttur og metnaður þessara sjálfstæðu skóla sé nauðsynlegur inn í okkar háskólaflóru. En ég er líka jafnsannfærð um að ríkisstjórnin og ríkisvaldið eigi að standa (Forseti hringir.) af miklu alefli vörð um jafnrétti til náms í okkar þjóðskóla.