132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Landshlutaverkefni í skógrækt.

555. mál
[14:03]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var auðvitað yndisleg ræða. Hv. þingmaður þakkaði þann einfaldleika sem verið var að setja málið í en svo kom flækjan. Hann skildi ekkert í nafngiftum og mér fannst, hæstv. forseti, að hv. þingmaður færi út af í máli sínu. Þegar við hugsum um það fallega nafn Héraðsskóga, Fljótsdalshérað. Hvað er fegurra til? Hvað kemur manni í hug annað en sólskinið fyrir austan og bjartur dagur og … (KolH: Og álver.) hnjúkaþeyr, uppbygging sem þar ríkir og krafturinn í byggðinni.

Héraðsskógar eru dýrmætasta nafn í hinni nýju skógræktarsögu. Þar eru frumkvöðlarnir, þar tóku menn við verkefnum frá Skógrækt ríkisins og hafa verið frumkvöðlarnir sem hafa borið þetta það vel áfram en nú eru það verkefni um allt Ísland. Þess vegna verða þeir á fjörðunum að sætta sig við að falla undir hinn stóra himin héraðsins og þetta heiti Héraðsskógar. Ég vona að við ruglum ekki og týnum ekki þeirri nafngift í störfum þingsins. Ég treysti á hv. formann landbúnaðarnefndar að vera mér hjálpleg við að halda í nafnið Héraðsskógar.