132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Almenn hegningarlög.

209. mál
[13:01]
Hlusta

Flm. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni fyrir stuðning við þetta frumvarp. Ég held að í umræðunni hafi það sýnt sig að menn vilja a.m.k. fá tækifæri til að taka þetta frumvarp til umræðu í þingsal og láta það ekki sofna, hvorki í allsherjarnefnd né í meðförum forseta Alþingis.

Ég gerði að mínu mati tæmandi grein fyrir málinu áðan. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en tek fram að hér er á ferðinni einfalt hagsmunamat, milli almennra röksemda með fyrningu og hins vegar hagsmuna á bak við þolendur í þessum brotaflokki. Sérstaðan í þessum brotaflokki blasir við öllum, tölfræðin og dómarnir sýna það. Opinber skjöl sýna að einstaklingar sem verða fyrir kynferðisafbrotum á barnsaldri leita sér aðstoðar seint. Þess vegna er hætta á að þau brot fyrnist í meiri mæli en í öðrum afbrotum. Þetta frumvarp tekur á því, þeim aðstöðumun sem gerandinn hefur gagnvart barninu. Það er bara óásættanlegt að gerandinn hagnist á þeim aðstöðumun. Hann gerir það í krafti fyrningarreglna og mýmargir hafa bent á þá staðreynd að þegar þeir hafi loks leitað sér hjálpar eftir kynferðisofbeldi hafi það verið of seint því að kerfið er svona uppbyggt. Það eru sömuleiðis engin lagatæknileg rök gegn samþykkt þessa frumvarps. Nú þegar eru til ófyrnanleg brot. Víðs vegar í löggjöfinni er tekið tillit til sérstöðu barna og framan af öldinni voru mörg afbrot ófyrnanleg. Eins og ég sagði eru enn til ófyrnanleg afbrot.

Ég vona að þingheimur taki frumvarpi fagnandi. Við sáum í gærkvöldi að allar þingkonurnar tóku þátt í uppsetningu á Píkusögum. Það var afskaplega góð sýning sem m.a. minnti á baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi. Ég tel að þetta frumvarp sé liður í baráttu gegn kynbundnu ofbeldi. Ég vona að þær þingkonur, a.m.k. þær sem tóku þátt í þeirri uppfærslu, muni skoða málið alvarlega og vonandi styðja það í ljósi þeirra hagsmuna og þeirra staðreynda sem liggja hér að baki.

Ég vil að lokum hvetja hv. þingkonur sem tóku einmitt þátt í uppsetningunni til að endurskoða okkar hug í þessum málaflokki. Það kemur oft spánskt fyrir sjónir að ákveðin tregða skuli vera hjá ríkisstjórnarflokkunum gagnvart málum á þessu sviði. Mér fyndist að mál sem þetta ætti að vera þverpólitískt mál, mál sem allir ættu að vera sammála um. Að sjálfsögðu vill enginn vernda barnaníðinga eða auðvelda kynferðisofbeldi gegn börnum en við höfum ákveðin úrræði sem löggjafi, m.a. að afnema fyrningarfrest, setja sérstakt ákvæði um heimilisofbeldi eins og ég hef lagt hér fram í sér þingmáli. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur lagt til að við förum svokallaða austuríska leið, sem felst í að fjarlægja gerandann í heimilisofbeldi af heimilinu en ekki þolandann.

Hér hefur verið bent á þörf á meðferð fyrir gerendur í svona málum og umræðuna um vændislöggjöfina mætti t.d. nefna þar sem grundvallarmunur er á afstöðu Sjálfstæðisflokksins og flestra annarra flokka. Það er skrýtið að vinna í þessum málum og alltaf mæta þessari tregðu, hiki við að gera skynsamlegar breytingar í þessum málflokki. Hér eru miklir hagsmunir í húfi og ákveðin atriði í samfélagi okkar sem við viljum vinna gegn öll saman. Við höfum ákveðnar leiðir til þess, m.a. að setja lög í þá átt sem hér er mælt með. Af hverju tökum við ekki einfaldlega höndum saman um að laga þetta í eitt skipti fyrir öll því að hluti lausnanna blasir við? Að sjálfsögðu er þetta flókinn vandi. Að sjálfsögðu verður þessi vandi ekki eingöngu leystur með löggjöf. En við erum löggjafinn og höfum úrræði til að bregðast við. Við eigum að nota þetta úrræði til að bregðast við kynferðisafbrotum gegn börnum.