132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[12:09]
Hlusta

Frsm. meiri hluta félmn. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek alls ekki undir að hér sé um hænuskref að ræða. Alls ekki. Ég tel að hér sé um að ræða mjög stórt framfaramál fyrir foreldra sem eignast börn sem greinast með langvinnan sjúkdóm eða fötlun. Þetta eru algjörlega ný réttindi sem hafa ekki verið fyrir hendi, þessar greiðslur, 93.000 kr. á mánuði, sem greiðast í ákveðinn tíma, tímabundið vegna bráðaaðstæðna sem koma upp. Þessar greiðslur eru inntar af hendi til að halda betur tengslunum við vinnumarkaðinn. Þannig að ég get alls ekki tekið undir að þetta sé hænuskref. Gestirnir sem komu til okkar, hagsmunaaðilarnir, fögnuðu frumvarpinu.

En að sjálfsögðu eins og aðrir hagsmunahópar þá vilja þeir fá hærri greiðslur og í lengri tíma. Það er bara ósköp eðlilegt að hagsmunaaðilar vilji það. Þannig að þetta eru nýjar greiðslur. Þetta er mikið framfaraspor. Og þetta mun kosta ríkissjóð, skattborgara þessa lands, 160–170 millj. þegar þetta er komið að fullu til framkvæmda. Ég held að það sé mjög góð samstaða um að skattborgararnir taki sameiginlega á sig að aðstoða þennan hóp. En það er alltaf spurning um hvar á skera á milli, hver upphæðin á að vera og í hve langan tíma. Þetta er í anda nefndarinnar sem vann að frumvarpinu þar sem hagsmunaaðilar voru einnig en auðvitað gerðu þeir athugasemdir við greiðsluna þar eins og í nefndinni hjá okkur.

Varðandi breytinguna sem er verið að gera hér eru rökin fyrir henni þau að við viljum eins og andi frumvarpsins segir, að halda tengslum þessara foreldra við vinnumarkaðinn og það er eðlilegt að hafi þeir rétt í sjúkrasjóðnum þá sæki þeir hann og síðan komist á greiðslum frá ríkinu ef börnin eru lengur veik en þau réttindi kveða á um. Það var rætt við forustu ASÍ. Mér er kunnugt um að ráðherra ræddi við forustu ASÍ um þetta mál. En ég veit að stéttarfélögin töluðu ekki fyrir þessari breytingu í nefndinni. Það er alveg ljóst. Þau vildu hana ekki.