132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

510. mál
[13:16]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu. Ég tel það nú algjöran óþarfa af hv. þingmönnum að hnýta eitthvað í hæstv. menntamálaráðherra sem sagði áðan að það væri ákjósanlegt og fýsilegt að stofna framhaldsskóla á þessu svæði. Hæstv. ráðherra er að láta inna af hendi mikla vinnu við þetta mál og ég vil segja hæstv. ráðherra, vegna þess að ég tel mig hafa dálitlar tengingar norður, að því miður hefur umræddur starfshópur, sem hæstv. ráðherra setti af stað í góðri meiningu, ekki haft formlegt samráð enn þá við heimamenn. Þar sem starfshópurinn á að ljúka störfum 1. maí og í dag er 8. mars tel ég mikilvægt að starfshópurinn setji sig í samband við heimamenn og að fram fari mikil og vönduð vinna á næsta einum og hálfa mánuði eða svo til að meta kosti og galla þess að setja á fót framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð.

Hæstv. ráðherra nefndi gott dæmi um þau áhrif sem Fjölbrautaskóli Snæfellinga í Grundarfirði hefur haft á byggðirnar á Snæfellsnesi. Byggingar rísa nú á Grundarfirði og bjartsýni ríkir enda er framhaldsskólinn staðsettur þar. Ég vil benda hæstv. ráðherra og þingmönnum á að fulltrúar sveitarfélaganna þriggja við utanverðan Eyjafjörð hafa farið til Grundarfjarðar og kynnt sér þá miklu starfsemi sem þar fer fram. Þar hefur nemendafjöldi farið fram úr björtustu vonum. Á þriðja hundrað nemendur stunda nú nám við skólann. Og það er ekki einungis unga fólkið, það er fólkið í atvinnulífinu á svæðinu sem nýtir sér þar símenntun sem allt venjulegt fólk gerir kröfur til í dag að geta stundað samhliða störfum sínum á viðkomandi svæðum.

Því fagna ég þeim jákvæðu skilaboðum sem ég greini frá hæstv. ráðherra í þessari umræðu og hvet hana til góðra verka í þessum efnum.