132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Losunarkvóti á gróðurhúsalofttegundir.

570. mál
[15:29]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Í fylgiskjali 3 með þingsályktun sem ríkisstjórnin lagði fram hér í Alþingi þegar stefnumörkun hennar var kynnt með Kyoto-bókuninni stendur, með leyfi forseta:

„Ríkjum er í sjálfsvald sett hvort þau takmarki útstreymi innan lands með úthlutun útstreymisheimilda og viðskiptum með þær. Að athuguðu máli er ekki talin ástæða til þess að fara þá leið hér á landi.“

Hefur hæstv. ráðherra þá skoðun að þessi niðurstaða hafi verið skynsamleg og í ljósi þeirra hugmynda sem nú eru uppi um viðbótarframkvæmdir hvað varðar stóriðju í landinu? Er þá ekki ástæða til þess að endurskoða þá afstöðu ríkisstjórnarinnar? Finnst hæstv. ráðherra það ásættanleg staða fyrir ráðuneyti sitt og ráðherraembætti að þurfa að skrifa undir starfsleyfi fyrir hvaða útblástur sem er hér á landi?