132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Framtíð Listdansskóla Íslands.

[10:44]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Af hverju treystir hæstv. menntamálaráðherra sér ekki til að koma til þessarar umræðu? Hún var látin vita af henni en hún getur ekki komið hingað til að standa fyrir máli sínu. Það er því miður að verða venja hjá hæstv. ráðherra að hún flýr af hólmi í hvert einasta skipti sem hún þarf að standa andspænis þeim klúðrum sem hún veldur sjálf.

Í þessu máli, frú forseti, er verið að fjalla um eitt mikilvægt grundvallaratriði og það er þetta: Er hægt að treysta orðum ráðherra? Hæstv. menntamálaráðherra gaf yfirlýsingar úr þessum stóli um ákveðna úrlausn. Ráðherrann lofaði foreldrasamtökum ákveðinni lausn á málinu og það blasir einfaldlega við að hún hefur ekki staðið við þau orð. Því miður er það að verða þannig með þennan ráðherra að ekki er alltaf hægt að treysta orðum hennar og ekki bara í þessu máli.