132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norræna ráðherranefndin 2005.

565. mál
[11:00]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir skýrslu samstarfsráðherra um störf norrænu ráðherranefndarinnar árið 2005. Skýrsla þessi er að venju unnin í samvinnu allra ráðuneyta og gefur hún gott yfirlit yfir það gróskumikla starf sem við Íslendingar eigum aðild að á vettvangi ráðherranefndarinnar. Til að starfsemi stofnunar á borð við ráðherranefndina standi undir væntingum er bæði áríðandi að setja henni langtímamarkmið og gefa henni afl og ráðrúm til að takast á við ný verkefni.

Með þessar kröfur að leiðarljósi var starfsemi ráðherranefndarinnar tekin til endurskoðunar á starfsárinu. Það leiddi til að ráðherranefndartillaga um nýskipan á starfseminni var lögð fyrir þing Norðurlandaráðs í lok október 2005 og samþykkt. Meginefni tillögunnar var að fækka fagráðherranefndunum úr 18 í 11. Samstarf um flestalla málaflokka ráðherranefndanna, sem lagðar voru niður sem formlegar ráðherranefndir, verður annaðhvort fellt undir einhverra þeirra ráðherranefnda sem starfa áfram óbreyttar að formi eða því verður haldið áfram sem óformlegu samstarfi viðkomandi ráðherra eða embættismanna.

Í framhaldi af þessari nýskipan á störfum ráðherranna hefur nú verið hafist handa við að endurskoða norrænu fjárlagagerðina með það að markmiði að á hverju ári verði nægilegt fjármagn laust til að sinna þeim málum sem brenna á hverju sinni, án þess þó að gengið verði á það fjármagn sem nauðsynlegt er til langtímaverkefna. Einnig er ætlunin að stytta fjárlagaferlið og koma því í þann farveg að Norðurlandaráð komi með sterkum hætti að mótun pólitískrar meginstefnu þegar við upphaf fjárlagavinnunnar. Niðurstöður eiga að liggja fyrir um mitt þetta ár.

Meðal allra mikilvægustu langtímaverkefna sem Norræna ráðherranefndin sinnir er að fækka stjórnsýsluhindrunum á norrænum landamærum. Á starfsárinu náðist sá árangur að opna sérstaka norræna skattagátt, sem skattyfirvöld á Norðurlöndum standa að. Þar eru allar upplýsingar um skattamál aðgengilegar almenningi og fyrirspurnum svarað á netinu. Þá er unnið að samnorrænni vinnumiðlun á netinu, sem í upphafi snýr að Eyrarsundssvæðinu en sem á að taka til fleiri svæða með tímanum. Ætlunin er að nýr samningur um almannaskráningu, sem undirritaður var í árslok 2004, taki gildi á árinu 2006. Hann mun einfalda mjög úthlutun kennitalna til þeirra sem flytjast frá einu norrænu ríki til annars.

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um breytingu á lögum um tilkynningar aðsetursskipta sem er forsenda þess að Ísland geti staðfest samninginn. Hér er gott dæmi um árangur í norrænu samstarfi sem fjölmargir Norðurlandabúar munu fljótlega verða áþreifanlega varir við.

Á starfsárinu var einnig opnuð sérstök viðskiptavefgátt fyrir atvinnulífið sem er sniðin að þörfum minni og meðalstórra fyrirtækja í norrænni útrás. Fleiri verkefni sem snúa að atvinnulífinu eru í vinnslu.

Poul Schlüter, fyrrverandi forsætisráðherra Dana, sem hefur verið sérstakur umboðsmaður samstarfsráðherranna á þessum vettvangi síðan í byrjun árs 2003 lét af störfum við síðustu áramót. Norðmenn, sem nú fara með formennsku í ráðherranefndinni, eru að íhuga hvernig best verði unnið áfram að markmiðum um landamæralaus Norðurlönd og stefna að því að leggja tillögur sínar fyrir næsta fund samstarfsráðherranna.

Ákveðin þáttaskil urðu á árinu í þeirri aðlögun norræns samstarfs að nýju pólitísku umhverfi í Norður-Evrópu, sem hófst þegar ljóst var að Eystrasaltsríkin mundu ganga í Evrópusambandið. Síðan í ársbyrjun 2006 fer samstarfið við Eistland, Lettland og Litháen fram á jafnréttisgrundvelli. Ekki er í gildi sérstök samstarfsáætlun lengur heldur er ætlunin að fagráðherranefndirnar sinni samstarfinu við Eystrasaltslöndin á sama hátt og samstarfi innan Norðurlanda og kosti það af fjárveitingum til fagsviðanna. Frá sama tíma munu samstarfsaðilar í Eystrasaltsríkjunum standa að ákvörðunum og fjárframlögum um samstarfsverkefni til jafns við norræna samstarfsaðila.

Markvisst var unnið að því að styrkja samstarfið við Rússland og sérstök Rússlandsáætlun tók gildi um síðustu áramót. Þar verður í fyrirrúmi starfsemi sem fellur að markmiðum Norðlægu víddarinnar, þar á meðal þekkingaruppbygging, starfsemi sem snýr að lýðræðisþróun og samstarf við frjáls félagasamtök.

Í lok ársins var undirritað samkomulag við rússnesk stjórnvöld um norræna upplýsingaskrifstofu í Kaliningrad. Með opnun skrifstofunnar stefnum við að því að ráðherranefndin geti orðið brautryðjandi fyrir annað alþjóðlegt samstarf í Kaliningrad á sama hátt og raunin var þegar upplýsingaskrifstofa var opnuð í Pétursborg fyrir rúmum tíu árum. Málefni Norðurskautssvæðisins hafa hægt og bítandi fengið meira vægi í samstarfi Norðurlanda. Síðan fyrsta áætlun um samstarf um málefni Norðurskautssvæðisins var gerð árið 1996, sama ár og Norðurskautsráðið var stofnað, hafa fjárframlög til málaflokksins meira en tvöfaldast. Ný Norðurskautsáætlun hefur verið gerð fyrir tímabilið 2006–2008. Í starfseminni er lögð rík áhersla á markvissa verkaskiptingu og samráð við aðrar fjölþjóðlegar stofnanir, aðallega Norðurskautsráðið en einnig Evrópusambandið og Barentsráðið.

Samstarfið við Evrópusambandið hefur verið eflt jafnt og þétt á undanförnum árum. Norræna ráðherranefndin tók til dæmis virkan þátt í að undirbúa nýja framkvæmdaáætlun sambandsins fyrir Norðlægu víddina, sem tók gildi um áramótin 2004/2005. Ég vil sérstaklega nefna tvö mikilvæg verkefni sem unnin eru í samstarfi við Evrópusambandið. Þau beinast annars vegar að því að styrkja landamærasamstarf á ytri landamærum Evrópusambandsins og hins vegar að því að fjármagna háskóla sem í daglegu tali er nefndur EHU-háskólinn, sem er skammstöfun á European Humanities University. Stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi sviptu hann starfsleyfi árið 2004 og gerðu hann brottrækan úr húsnæði sínu. En hann er nú starfræktur í útlegð í Vilnius í Litháen með stuðningi frá Norrænu ráðherranefndinni og Evrópusambandinu og nokkrum fleiri aðilum. Bæði kennarar og nemendur koma frá Hvíta-Rússlandi. Með því að styðja þessa starfsemi gefst fágætt tækifæri til að stuðla að lýðræðisþróun og tengslum við íbúa Hvíta-Rússlands sem við vonum að framhald geti orðið á. Ráðherranefndin vinnur einnig ötullega á fjölmörgum sviðum að markmiðum Norðlægu víddarinnar.

Á árinu var unnið að umfangsmiklum breytingum á norrænu menningarsamstarfi. Meginmarkmið þeirra er að einfalda kerfið og losa fjármuni til að efla sveigjanleika og pólitískt vægi starfseminnar. Tvær fastanefndir um menningarsamskipti voru lagðar niður við nýliðin áramót og við áramótin 2006/2007 verða enn frekari breytingar þegar sjö nefndir og stofnanir á menningarsviði verða lagðar niður

Í lok febrúar sl. var kallað til fyrsta norræna menningarþingsins, sem ætlað er að verða nýr breiður vettvangur fyrir ráðgjöf og umræðu um norræn menningarmál, en þangað verða boðaðir nýir aðilar sem ekki hafa fyrr komið að samstarfinu.

Í upphafi árs 2005 tók til starfa ný stofnun, NordForsk, eða Norræna rannsóknaráðið, með aðsetur í Ósló. Frá sama tíma var Norræna stofnunin um vísindamenntun og Norræna vísindastefnuráðið lagt niður. Stofnun NordForsk kemur í kjölfar stofnunar Norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar, sem tók til starfa í byrjun árs 2004, einnig í Ósló. Þessar stofnanir eiga að hafa með sér náið samstarf. Mikilvægasta markmið breytinganna er að styrkja samlegðaráhrif á sviði vísinda og nýsköpunar á Norðurlöndum og efla þannig samkeppnishæfni landanna út á við.

Eins og fram kom í fyrri skýrslu kynntu Norðurlönd sig sem eitt svæði á heimssýningunni í Aichi í Japan, en hún stóð yfir frá 25. mars til 25. september. Löndin voru því með sameiginlegan sýningarskála þar sem einkenni þjóðanna voru dregin fram og túlkuð með ýmsum hætti. Ráðherranefndin styrkti verkefnið með 5 millj. danskra króna og lagði auk þess til skrifstofuaðstöðu í húsakynnum sínum í Kaupmannahöfn fyrir framkvæmdastjóra og annað sameiginlegt starfslið.

Það er ljóst að miklir fjármunir spöruðust með þessu samstarfi landanna auk þess sem því fylgja ákveðin samlegðaráhrif að kynna Norðurlönd sameiginlega í svo fjarlægu landi sem Japan er. Samstarfsráðherrarnir ákváðu í lok ársins, að frumkvæði Færeyinga, að láta fara fram hlutlausa úttekt á stöðu Færeyja, Grænlands og Álandseyja í samstarfinu í Norrænu ráðherranefndinni. Þegar niðurstöður liggja fyrir, sem áætlað er að verði í júní í ár, tökum við ákvörðun um hvort mögulegt sé að ráðast í breytingar sem bæta stöðu sjálfsstjórnarsvæðanna innan norræna samstarfsins. Norðurlandaráði verður gefinn kostur á að fylgjast með þessu starfi.

Þing Norðurlandaráðs, sem háð var á Hótel Nordica í Reykjavík 25.–27. október, þótti takast með ágætum, bæði hvað varðar pólitíska umræðu og ytra skipulag. Ríkisstjórn Íslands bauð, eins og venja er, öllum þingfulltrúum og starfsmönnum þingsins til kvöldverðar sem haldinn var í Perlunni. Skömmu fyrir þingið átti ég sem samstarfsráðherra gagnlegan fund með Íslandsdeild Norðurlandaráðs þar sem við fórum yfir helstu áherslumál og ræddum stöðuna í samstarfinu. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, sem kosin var forseti Norðurlandaráðs á þingi ráðsins í Stokkhólmi í október 2004, gegndi því embætti með miklum sóma árið 2005. Ég vil fyrir hönd ríkisstjórnarinnar færa henni þakkir fyrir mikilvægt framlag til norræna samstarfsins sem forseti Norðurlandaráðs.

Frú forseti. Skipulagsbreytingar sem snúa að því að einfalda kerfið, taka á nýjum verkefnum af krafti og nýta fjármuni og tíma þátttakenda sem best hafa einkennt starfsemi ráðherranefndarinnar á starfsárinu. Þær voru ekki allar sársaukalausar þótt bærileg sátt næðist um þær áður en yfir lauk. Ég tel að þær hafi verið nauðsynlegar og geri ráðherranefndina betur í stakk búna til að svara kalli tímans.

Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, gegndi embætti samstarfsráðherra til 29. september, en við brotthvarf Davíðs Oddssonar úr ríkisstjórn og þær breytingar á ráðherraembættum sem fylgdu í kjölfarið tók ég við embætti samstarfsráðherra. Mér þykir afar vænt um norræna samstarfið og tel það mjög mikilvægt í alþjóðlegu samstarfi okkar Íslendinga. Ég mun leggja rækt við að eiga sem mest og best samstarf við Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Þar skiptir öllu máli að við séum samhent um að koma áleiðis þeim málum sem mestu varða fyrir land og þjóð og Norðurlöndin öll sem heild.