132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norræna ráðherranefndin 2005.

565. mál
[11:14]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa greinargerð og skýrslu sem liggur fyrir þinginu. Þetta er yfirgripsmikil og mjög skilmerkilega framsett skýrsla. Við eigum eftir að ræða betur aðkomu íslenskra þingmanna að Norðurlandasamstarfinu þegar gerð verður grein fyrir starfi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf.

En ég kem hér fyrst og fremst upp til að þakka fyrir skýrsluna og lýsa mig sammála, og okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, við þann tón og þær áherslur sem fram koma hjá hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra gerir grein fyrir þeim skipulagsbreytingum sem eru í farvatninu til að gera allt stjórnkerfið skilvirkara og einfaldara þannig að það þjóni betur þeim tilgangi sem norrænu samstarfi er ætlað.

Mér leikur forvitni á að heyra hugmyndir ráðherrans um hvert hún telji stefna í norrænu samstarfi. Frá því um miðja síðustu öld hefur þungamiðjan í erlendu samstarfi Íslands verið hið norræna samstarf en við vitum að sú þungamiðja hefur verið að færast til. Færast frá norrænu höfuðborgunum til Brussel og það er nokkuð sem ég þekki á öðrum vettvangi sem ég kem einnig að, þ.e. samstarfi launafólks. Ég hef sem formaður BSRB átt aðkomu að norrænu verkalýðssamtökunum NFS sem funda reglulega þar sem menn koma saman og bera saman bækur sínar. Við finnum á þeim vettvangi hvernig áherslurnar eru að færast sífellt nær Evrópu. Þessir fundir hafa því í auknum mæli orðið undirbúningsfundir fyrir samstarf á evrópskum vettvangi. Ekki bara evrópskum, heldur fjölþjóðlegum og alþjóðlegum. Menn horfa til samninga sem verið er að gera á heimsvísu að vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og fleiri alþjóðastofnana sem við eigum aðild að. Mér þætti því fróðlegt að heyra álit ráðherrans um framtíðina, framtíðarhorfurnar.

Af skýrslunni að dæma fer fram líflegt starf á vegum Norðurlandaráðs. En hvert telur ráðherrann stefna í því samstarfi? Nú heyrum við frá Norðurlöndum að þar sé jafnvel dvínandi áhugi á norrænu samstarfi. Mér heyrist tónninn ekki vera sá frá ríkisstjórn Íslands og ég hef ekki trú á að alþingismenn almennt vilji draga úr því samstarfi. Í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði er tvímælalaust áhugi á að viðhalda norrænu samstarfi og jafnvel efla það enn. En við viljum að sjálfsögðu einnig vera raunsæ og það er mjög mikilvægt að norrænt samstarf og norrænum stofnunum takist að aðlaga sig að breyttum háttum og áherslum.

Í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum við átt samstarf á norrænum grundvelli við systurflokka okkar. Þetta nefnist vinstri græna samstarfið. Það eru vinstri sinnaðir stjórnmálaflokkar og stjórnmálaflokkar sem leggja ríka áherslu á umhverfisvernd sem mynda eina blokk í þessu norræna samstarfi. (ÖS: … ríkisstjórn í Noregi?) Við erum með ríkisstjórn í Noregi, til svara við hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Þá er það alveg rétt að þar hefur verið mynduð samsteypustjórn sósíaldemókrata og vinstri flokksins þar sem er systurflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, nokkuð sem ég get mjög vel hugsað mér (ÖS: … til Afganistans?) að yrði uppi hér að loknum næstu kosningum

Ég heyrði ekki Afganistanspurningu hv. þingmanns en fróðlegt væri að hann kæmi þá í ræðustól og gerði grein fyrir Afganistanáherslum flokks síns. En það mun án efa verða gert við umræðu síðar í dag þegar NATO-mál ber á góma. Því ef ég man rétt er hv. þm. Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, formaður NATO-nefndar Íslands. Öðruvísi mér áður brá þegar menn voru á róttækum klæðum fyrir 10–20 árum og þá hefði nú fæstum dottið í hug að sá ágæti hv. þm. Össur Skarphéðinsson færi fyrir NATO-nefnd Íslands. En fróðlegt verður að heyra hann ræða þau málefni þegar þar að kemur.

En ég ætla ekki að fara út í aðra sálma. Mér finnst þetta vera alvarlegt og mjög mikilvægt málefni sem við erum að fjalla um og þætti vænt um, áður en umræðunni lýkur, að hæstv. ráðherra leggi sitt mat á horfurnar í norrænu samstarfi á komandi árum.