132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norræna ráðherranefndin 2005.

565. mál
[13:58]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kemur nú flatt upp á mig í umræðunni, ég hef ekki verið að ræða persónulegar eignir mínar. Flestum þykir nú vænt um líf sitt og að hafa fæðst og þá ábyrgð sem því fylgir. Mér þykir vænt um að fá að vera til.

Varðandi önnur atriði sem hv. þingmaður ætlaði greinilega að spyrja um, þ.e. um hlut Norræna fjárfestingarbankans í byggingu Kárahnjúkavirkjunar, þá var ég einmitt að draga það fram að Norræni fjárfestingarbankinn hefur sett sér mjög ströng umhverfisviðmið til hvaða verkefna hann lánar út á. Þess vegna kom það mjög flatt upp á mig að sjá hér í texta að lán til Kárahnjúkavirkjunar skuli vera flokkað undir eitt af umhverfisverkefnum Norræna fjárfestingarbankans, verkefni sem hefur hvergi fengið stuðning, hvorki hjá Umhverfisstofnun né Skipulagsstofnun eða öðrum aðilum sem hafa verið að fjalla um þessa virkjun. Við getum deilt um hana á annan hátt en umhverfislega séð hefur hún fengið þann stimpil að vera stórkostleg umhverfisspjöll. Er því furðulegt að bankinn skuli lána til hennar á þeim forsendum.