132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

.

. mál
[10:25]
Hlusta

Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Nú er liðinn sá tími sem ætlaður var til að ræða störf þingsins. Samkvæmt þingsköpum eru það 20 mínútur. En það eru fjölmargir hv. þingmenn sem eru á mælendaskrá og komast því miður ekki að í þessari umræðu.

Að gefnu tilefni vill forseti rifja það upp að frumvarp til vatnalaga var lagt fram á síðasta þingi og var lagt fram að nýju á þessu þingi þann 3. nóvember sl.

1. umr. um málið á þessu þingi tók samtals sex klukkustundir og fór fram dagana 7. og 14. nóvember. Iðnaðarnefnd hefur haft málið til meðferðar síðan þá og skilað áliti, meiri hlutinn þann 3. mars en minni hlutinn nokkru síðar. Forseta er ekki kunnugt um að ágreiningur hafi verið um málsmeðferðina og að það færi frá nefndinni sem fullrætt og fullreifað þótt efniságreiningur væri í málinu.

2. umr. hefur nú staðið í rúmar 18 klukkustundir og farið fram á þremur fundum í vikunni, mánudaginn 6. mars, þriðjudaginn 7. mars og miðvikudaginn 8. mars. Við 2. umr. hafa nú talað aðeins níu ræðumenn. Framsögumaður minni hlutans gerði grein fyrir áliti sínu á fimm klukkustundum og samflokksmaður hans talaði í tæpar fjórar klukkustundir svo ætla má að sjónarmið minni hlutans hafi komið skýrlega fram.

Aðrir ræðumenn hafa einnig flutt langt mál. Eigi að síður eru 15 þingmenn á mælendaskrá þegar þessi orð eru töluð. (Gripið fram í.) Forseti hefur lagt sig fram á mörgum fundum með formönnum þingflokka að undanförnu við að reyna að ná samkomulagi um hvenær 2. umr. um málið geti lokið.

Í þeim samtölum hefur forseti lagt áherslu á að koma í veg fyrir langa kvöldfundi, hvað þá fundi fram á nótt. Slíkt vinnulag væri engum til sóma og á að heyra fortíðinni til. (MÁ: Svo sannarlega.) Það er ekki sú ásýnd sem við viljum að Alþingi hafi. Það er heldur ekki vinnubrögð sem venjulegt fólk með heimili og börn getur búið við.

Forseti hefur m.a. boðið að málið yrði rætt og 2. umr. lokið á mánudag í næstu viku eða jafnvel á þriðjudag en samkomulag hefur því miður ekki tekist á þeim grundvelli.

Forseti hefur því ekki átt annan kost en að boða til þessa þingfundar í dag þótt ekki hafi hann verið ráðgerður fundardagur í starfsáætlun þingsins. En að því hlýtur að koma að þingið fái að taka afstöðu til málsins með atkvæðagreiðslu við lok 2. umr. Mál þetta er flutt af ríkisstjórninni. Fyrir því er traustur og öruggur meiri hluti í þinginu og það er vilji meiri hlutans (Gripið fram í.) að það mál verði afgreitt. (Gripið fram í.) Það er auðvitað skylda forseta að sjá til þess að svo geti orðið og jafnframt því að eðlilegar umræður eigi sér stað um málið. (Gripið fram í: … dónaskapur.)

Í áliti minni hlutans er tillaga sem mun koma til afgreiðslu í atkvæðagreiðslunni við lok 2. umr. um að málinu verði vísað frá. Það er mikilvægt að þingið geti tekið afstöðu til þeirrar tillögu. Örlög málsins ráðast í þeirri atkvæðagreiðslu. Það er gangur lýðræðisins.