132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[15:54]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil segja í upphafi að ég dáist að forseta Alþingis og þeirri yfirvegun sem hún sýnir hér í þessari stjórn á fundum. Það hefur gengið á ýmsu hjá okkur, það er óhætt að segja það. Kannski hef ég líka látið orð falla sem hafa verið óþarflega sterk. Það er ekki útilokað.

Ég er að velta því fyrir mér með hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar að nú verða þeir líka að hugsa það að þeir geti lent í ríkisstjórn. Það er bókstaflega hægt að hugsa sér að það gerist eftir ár. (Gripið fram í.) Það er ekki útilokað. Ég útiloka ekkert. Ég er að hugsa það núna: Ef þetta fer í gegn, þetta frumvarp, og þessari skilgreiningu verður breytt úr jákvæðri yfir í neikvæða hvað varðar eignarréttinn, eru hv. þingmenn tilbúnir að segja það núna að þeir mundu fara í lagabreytingu og breyta aftur yfir í jákvæðu nálgunina? Ég efast um það. (Gripið fram í.) Það skiptir svo sem ekki máli. En ef hv. þingmenn eru sammála mér um að það skipti ekki máli færu þeir varla að standa í slíku þó að þeir væru komnir hér með völdin og meiri hlutann á hv. Alþingi. Þetta er akkúrat formið en ekki efnið sem hér er um að ræða.

Svo vil ég líka fá að segja, af því að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson var að velta fyrir sér hvort þetta gæti haft áhrif í sambandi við stórframkvæmdir fyrir austan, að svo er ekki. Ég er búin að kynna mér það og það eru allir sammála um það. Það var skipuð nefnd sem er að fara yfir vatnsréttindin hvað varðar sjálfar framkvæmdirnar á heiðinni. Þau lög sem eru í gildi í dag skipta ekki máli. Það skiptir ekki máli hvort þau eru í gildi eða að frumvarpið verði orðið að lögum. (Gripið fram í.) Hið sama gildir niðri í Fljótsdalnum þar sem augljóslega verður meira vatn sem rennur eftir að eitt fljót hefur verið flutt. Þá er það spurning um skaðabótamál sem bændur í Fljótsdal færu hugsanlega í. Það verður bara að hafa sinn gang samkvæmt lögum. Þetta frumvarp er ekki sett hér fram í tengslum við stórframkvæmdir fyrir austan. Ég vil að það sé alveg klárt.

Svo vil ég segja að síðustu: Hver getur ekki tekið undir það að við viljum að allir geti haft aðgang að vatni út af þessari yfirskrift og ráðstefnu sem haldin var, „Vatn fyrir alla“? Við erum öll sammála um það. Við Íslendingar þurfum ekki að óttast að við förum út á einhverjar hættulegar brautir í sambandi við þessa miklu yfirskrift, „Vatn fyrir alla“, þótt þetta frumvarp verði að lögum. Það breytir engu um það.

Ég er að vonast til að hv. þingmenn velti því fyrir sér hvort við getum ekki einhvern veginn klárað þetta. Því miður er ekki til neinn millivegur. Þetta er annaðhvort jákvæð skilgreining eða neikvæð. Það er nokkuð ljóst að (Forseti hringir.) stjórnarmeirihlutinn getur ekki dregið þetta frumvarp til baka. (Gripið fram í: Nú?) (Gripið fram í: Af hverju ekki?)