132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[17:26]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Gunnari Erni Örlygssyni fyrir ræðu sína. Þetta var örugglega ein af bestu ræðunum sem hér hefur verið flutt um þetta mál. Ég vil líka segja að í prinsippinu er ég honum algjörlega sammála um að það eigi að stöðva netaveiði í ám.

Ég tel hins vegar að besta leiðin til þess sé sú að reyna að sannfæra hæstv. landbúnaðarráðherra og toga hann til fylgis við málstaðinn. Ég held að það verði a.m.k. að reyna til þrautar að gera þetta með samningum en ef það tekst ekki þá á Alþingi einfaldlega ekki annars úrkosti en að setja um þetta lög. Ég tel að Íslendingar hafi náð miklum árangri með því að hafa frumkvæðið að því að banna netaveiðar í sjó. Ég sjálfur var einu sinni ráðherra og var í för með Orra Vigfússyni þegar hann talaði við kollega minn þáverandi í Bretlandi með góðum árangri. Þetta er barátta sem við eigum öll að styðja. Ég skil ekkert í hinum (Forseti hringir.) ágæta hæstv. landbúnaðarráðherra, sem hefur nú góðan skilning og samúð (Forseti hringir.) með flestu kviku sem syndir og hrærist, að styðja þetta mál (Forseti hringir.) ekki af einurð og drengskap.

(Forseti (ÞBack): Ég verð að biðja hv. þingmenn um að virða þennan stutta ræðutíma.)