132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Lífeyrissjóður bænda.

622. mál
[15:05]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 12/1999, um Lífeyrissjóð bænda, með síðari breytingum.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um Lífeyrissjóð bænda. Fela þær það í sér að lagaumhverfi Lífeyrissjóðs bænda verði einfaldað og starfsumhverfi lífeyrissjóðsins gert sem sambærilegast starfsumhverfi annarra lífeyrissjóða.

Í frumvarpinu er lagt til að ákvæði 4.–7. gr. og 9.–14. gr. laganna verði felld á brott. Að nokkru leyti, líkt og fram kemur í frumvarpinu, hafa umrædd ákvæði verið tekin upp í 1. gr. frumvarpsins, en að mestu leyti hafa þau þó verið felld á brott. Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvæði 15.–18. gr. laganna, sem fjalla um eftirlaun til aldraðra bænda, verði lögfest og munu því þau ákvæði verða flutt úr III. kafla laganna yfir í II. kafla þeirra. Engar efnislegar breytingar eru gerðar á þeim ákvæðum, að því undanskildu að ákvæðum um fjárhæð og greiðslutilhögun lífeyris er bætt við.

Rétt þykir að í lögum um Lífeyrissjóð bænda sé einungis tekið á sérstöðu sjóðsins, svo sem sjóðsaðild, iðgjaldsstofni og iðgjaldi bænda, svo og innheimtu þeirra en hún er með nokkuð öðrum hætti en hjá öðrum lífeyrissjóðum. Gert er ráð fyrir að önnur ákvæði um starfsemi sjóðsins, svo sem réttindaávinnsla og lífeyrisréttindi, verði í samþykktum sjóðsins.

Í frumvarpinu er ekki um að ræða neinar efnislegar breytingar á lögum um Lífeyrissjóð bænda aðrar en þær að ákvæði um lífeyrisréttindi vegna áunninna réttinda verði felld niður til þess að unnt verði að samræma þau lífeyrisréttindaákvæðum hjá öðrum lífeyrissjóðum.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.