132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[14:10]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég get alls ekki fallist á það að ég hafi einhverja óbeit á Framsóknarflokknum. Mér þykir vænt um flokkinn og vil leiða honum fyrir sjónir að hann er á rangri leið. Það er augljóst ef menn líta yfir byggðir landsins sem hann hefur leikið gríðarlega hart á umliðnum árum.

En það sem mér finnst skipta máli og skiptir máli fyrir fólkið í landinu, mig og fleiri sem fá rafmagnsreikning frá Rarik, er að horft sé á hin praktísku úrlausnarefni, þ.e. hvort rafmagnsreikningurinn hafi hækkað eða lækkað. Nú hefur hann einungis hækkað á umliðnum árum og því tel ég að menn eigi að staldra við.

Ég beindi spurningum til hv. formanns iðnaðarnefndar. Ég vonast til að hann svari þessum praktísku spurningum en ég er samt ekkert viss um það. Flokkurinn virðist keyrður áfram af þeirri hugmyndafræði að bara við það að háeffa leysist öll heimsins vandamál. Ég er ekki þannig gerður. Ég vil að menn horfi á praktísku úrlausnarefnin. Ég vonast til að vinir mínir í Framsóknarflokknum átti sig á því að það sé ekki eingöngu hægt að horfa til hugmyndafræði heldur verða menn að líta til praktískra vandamála, sérstaklega þegar verk þeirra hafa einungis orðið til hækkunar.