132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Upplýsingaréttur um umhverfismál.

221. mál
[15:40]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er stigvaxandi spenna í þessu máli. Umhverfisráðherra fæst ekki heldur núna til að svara því hvort hún er pólitískt sammála Árósasamningnum sem gerður var árið 1998 og um það bil 40 Evrópuríki hafa skrifað undir. Það eru eingöngu, held ég, 6 eða 7 ríki sem ekki hafa gert það og Ísland er eitt þeirra ásamt sennilega Kasakstan og Túrkmenistan og öðrum ríkjum af því tagi, þar er varla vitað hvað umhverfismál eru yfir höfuð.

Ég spyr m.a. vegna þess að ein stoð þessa Árósasamnings snertir ákvarðanatöku um umhverfismál, snertir samskipti stjórnvalda við hin frjálsu félagasamtök. Ég fagna því sem hæstv. umhverfisráðherra sagði áðan að það skipti hana sem stjórnmálamann og hana sem yfirmann í umhverfisráðuneytinu miklu máli að gott samstarf væri við hin frjálsu félagasamtök. Ég efa það ekki og það liggur sem betur fer í hefð umhverfisráðuneytisins að svo sé.

Hins vegar er það þannig að stjórnvöld í því ráðuneyti hafa hagað sér nokkuð eins og húsbóndinn á höfuðbólinu gagnvart þessum frjálsu félagasamtökum, skammtað þeim fé eftir vild og síðan halda þau t.d. þetta umhverfisþing sem vissulega er sómi að. En hvernig er dagskrá þess ákveðin? Er hún ákveðin í samráði við umrædd félagasamtök? Er hún ákveðin með tilliti til þess hvað er í umræðu hjá þeim félagasamtökum hverju sinni? Nei, það er ekki svo. Það er tilviljun ef svo er því umhverfisráðherra ákveður dagskrána sjálf. Síðan býður hún til umhverfisþingsins algerlega án samráðs við þessi samtök nema innan þess ramma sem hún sjálf ákveður. Þetta eru einmitt samskipti eins og þau eiga ekki að vera, forseti. Svona eiga hlutirnir ekki að vera og ég hygg að þegar við höfum komið Árósasamningnum í gegn, þó að það verði kannski ekki fyrr en í næstu ríkisstjórn, þá verði þetta einmitt ekki svo, þá hafi stjórnvöld sinn rétt í þessum efnum og hin frjálsu félagasamtök hafi þau áhrif sem þeim ber og er skylt að hafa.