132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Almenn hegningarlög.

365. mál
[17:07]
Hlusta

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála lokaorðum hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur um mikilvægi þess að þessi verkefni séu ofarlega á dagskrá hjá okkur og við höldum áfram að vinna að þeim aðgerðum sem við sjáum að geti leitt til að draga úr heimilisofbeldi og skyldum brotum. Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á að samstaða ríkir um þær tillögur sem felast í þessu frumvarpi sem slíku. Það hefur komið fram við umræðuna og kom fram í umsögnum fjölmargra aðila sem um þetta mál hafa fjallað. Ég er a.m.k. þeirrar skoðunar að um sé að ræða mikilvægt skref til að undirstrika vilja löggjafans að þessu leyti, undirstrika að Alþingi lítur svo á að brot sem eru framin milli náinna ættingja geti verið þess eðlis, vegna þess trúnaðar sem á að ríkja milli þessara aðila, séu mun alvarlegri en brot sem eru framin milli óskyldra aðila eða annarra.

Ég held að það verði ekki hjá því komist að fela dómurum ákveðið mat í þessu sambandi. Tilvikin eru ólík og ég tel varasamt að negla þessa þætti of mikið í lagatextann sjálfan. Þess vegna er ég kannski ekki sammála athugasemdum frá ríkissaksóknara og Lögmannafélaginu sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vísað til áðan. Ég tel að það verði meta svolítið hverjar aðstæður fyrir sig og dómarar verði að hafa svigrúm að því leyti. En í mínum huga er hins vegar enginn vafi á um að þessi löggjöf, þessar tillögur sem hér eru, undirstriki vilja löggjafans til að taka fast á þessu máli.