132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[18:24]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Varðandi það þegar einstakir nefndarmenn gera fyrirvara við nefndarálit tel ég það góða verklagsreglu að sá fyrirvari sé tilgreindur í nefndarálitinu. Því þá eru menn að segja að þeir séu sammála ákveðnum þáttum í nefndarálitinu en ekki öðrum og einnig að eitthvað er óljóst sem þeir eru ekki sáttir við.

Að mínu viti á það að vera sjálfsögð regla að í nefndaráliti sé gerð stuttlega grein fyrir í hverju fyrirvarinn er fólginn svo þingið viti um hvað verið er að ræða því viðkomandi eru fulltrúar þingsins í hv. allsherjarnefnd, eins og hér er um að ræða. Það segir þinginu ekki neitt um stöðu málsins þó einstakir þingmenn skrifi undir með fyrirvara ef sá fyrirvari er ekki tilgreindur.

Ég er því þeirrar skoðunar að það eigi að vera hin eðlilega vinnuregla að fyrirvarar séu tilgreindir og tek undir þær athugasemdir hv. þingmanns Kristins H. Gunnarssonar um að mjög óheppilegt sé í máli sem virðist vera mjög vanreifað og geti greinilega verið umdeilt og snertir grundvallaratriði, að þá skuli ekki vera gerð grein fyrir þeim fyrirvörum sem þarna geta verið. Reyndar er það skoðun mín og vil ég ítreka það sem ég sagði áðan og beini þeim eindregnu tilmælum til forseta að málið verði sent aftur til allsherjarnefndar milli 2. og 3. umr. þar sem farið verði yfir þá grunnþætti sem við höfum verið að gera að umtalsefni, stöðu þeirra réttinda sem verið er að færa þarna á milli og hvort sá réttur sé ónauðsynlegur gjörningur eða hvort þetta sé bara í besta falli óþarft plagg eða í annan stað að hættulegt gæti verið að gera þetta eins og hér er lagt til.

(Forseti (ÞBack): Forseti hefur hlustað á athugasemdir hv. þingmanna og þær verða skoðaðar.)