132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum Háskólans á Akureyri.

317. mál
[13:52]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Jákvæð byggðaleg áhrif Háskólans á Akureyri eru óumdeild. En framferði íslenskra stjórnvalda gagnvart skólanum síðustu missiri er hins vegar afskaplega umdeilt. Stjórnvöld hafa ekki mætt uppbyggingu skólans og fjárþörf. Í fyrra lokaði hann tveimur deilda sinna til að mæta þeim fjárhagsvanda sem hann stóð frammi fyrir. Þá var skólanum gert að beita fjöldatakmörkunum í því formi að taka ekki inn aðra nemendur en þá sem höfðu hefðbundið stúdentspróf sem skilaði sér í því að á annað hundrað manns var vísað frá Háskólanum á Akureyri.

Stjórnvöld hafa einfaldlega svikið Háskólann á Akureyri. Þau hafa komið í bakið á honum og þau hafa ekki gert honum kleift að blómstra og byggjast upp eins og hann átti að gera og hefur öll efni til að gera. Reyndar er staða Háskólans á Akureyri dæmigerð fyrir stöðu opinberu háskólanna allra en hún er kannski sérstaklega alvarleg í ljósi þess byggðalega hlutverks sem skólinn hefur fyrir landsbyggðina alla.