132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Flutningur verkefna í heilbrigðisþjónustu út á land.

648. mál
[15:22]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Erla Pálmadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ekki þarf að fara mörgum orðum um að atvinnuástand og atvinnuuppbygging á landsbyggðinni er forsenda byggðar utan höfuðborgarsvæðisins. Á síðustu árum hefur þróunin fremur orðið í þá átt að störf hafa tapast á landsbyggðinni með augljósum neikvæðum áhrifum á viðkomandi samfélög. Ný opinber störf hafa orðið til en þau hafa hlaðist niður á höfuðborgarsvæðinu. Skilningur stjórnvalda á þörfum landsbyggðarinnar er lífsnauðsynlegur til að samfélög utan höfuðborgarsvæðisins lifi af og nái að þróast til framtíðar. Þar skiptir hvert starf máli.

Þó hægt hafi miðað í flutningi starfa til landsbyggðarinnar lýsa einstaka ljós hér og þar. Á undanförnum missirum hafa hæstv. dómsmálaráðherra og hæstv. félagsmálaráðherra flutt störf á vegum ráðuneyta sinna út á land. Annars vegar hefur Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar verið flutt til Blönduóss og hins vegar Fæðingarorlofssjóður til Hvammstanga og Skagastrandar og það ber að þakka.

Til að gera grein fyrir hversu mikill ávinningur þetta er fyrir þessi svæði sem taka á móti nýjum störfum langar mig til að nefna hér þau áhrif sem þessi flutningur hefur haft á svæðið sem ég kem frá, þ.e. gamla Norðvesturland. Þegar það lá fyrir að störf Innheimtumiðstöðvar sekta og sakarkostnaðar og Fæðingarorlofssjóðs yrðu flutt á svæðið var ákveðið af hálfu svæðisráðs Svæðisvinnumiðlunar á Norðurlandi vestra að halda námskeið í skrifstofutækni til að undirbúa fólk sem vildi sækja um þessi störf. Fólk fylltist svo mikilli bjartsýni og kappi að um 80 manns sóttu námskeiðið. Í dag eru fimm námskeið í gangi, eitt á Skagaströnd, tvö á Blönduósi og tvö á Hvammstanga. Nú er verið að tala um u.þ.b. tíu störf á Blönduósi og u.þ.b. tólf störf á Skagaströnd og Hvammstanga. Stefnt er að því að útvíkka þetta svið og halda námskeið í skrifstofutækni, reikningshaldi og bókhaldi í framhaldinu. Einnig hafa ýmsir brottfluttir Húnvetningar spurst fyrir um þessi störf. Þetta sýnir okkur að áhugann vantar ekki á svæðinu heldur störfin.

Ákveðinn kostur er að úti á landsbyggðinni er minni starfsmannavelta, þ.e. minni hreyfing á starfsmönnum en víða í þéttbýli. Þeir sem búa úti á landi eru venjulega komnir til að vera og aðrir eru til sem vilja flytja út á land en hafa ekki atvinnumöguleika. Einnig má nefna að húsnæði er ódýrara en á höfuðborgarsvæðinu þannig að það ætti að laða að. Þetta ætti að leggjast á vogarskálarnar þegar talað er um kostnað.

Heilbrigðisstofnanir úti á landi eru allflestar vel í stakk búnar til að taka við fleiri verkefnum af hálfu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og því kemur þessi fyrirspurn til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra sem snýst um flutning verkefna í heilbrigðisþjónustu út á land.