132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Samráð við utanríkismálanefnd um varnarmál.

[12:07]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að vekja máls á þessu efni í upphafi þingfundar. Það vekur athygli að ríkisstjórnin með hæstv. utanríkisráðherra í fararbroddi virðist vilja reyna til þrautar tvíhliða samningaviðræður við Bandaríkjastjórn án þess að vilja skoða aðra kosti í stöðunni og er ég þar ekki að horfa til faðmlagsins við önnur NATO-ríki í því efni. Það bjóðast aðrir kostir einnig til að tryggja öryggi Íslands til frambúðar og ég tel að á þeim tímamótum sem Íslendingar eru nú þá eigum við að efna til þverpólitískrar umræðu um þá kosti sem nú bjóðast Íslendingum í þessari stöðu.

Það er í sjálfu sér eðlilegt að sú umræða fari fram á vettvangi Alþingis og í utanríkismálanefnd þingsins. En varðandi viðskilnað Bandaríkjastjórnar og Bandaríkjamanna á Miðnesheiði þá er eðlilegt að annar vettvangur verði fundinn fyrir þá vinnu. Ég minni á þingsályktunartillögu sem rædd var í síðustu viku og borin fram af þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – grænu framboði um nefnd, þverpólitíska nefnd sem taki á því verkefni sérstaklega. Sú tillaga er komin til umfjöllunar í utanríkismálanefnd þingsins en taki hæstv. utanríkisráðherra til máls að nýju við þessa umræðu þætti mér æskilegt að heyra viðhorf hans til þeirrar tillögu sérstaklega.