132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Slys á börnum.

504. mál
[13:54]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Spurt er: ,,Hversu mörg börn yngri en 15 ára slösuðust við leik á snjóþotum, sleðum og vélsleðum á árunum 2000–2005? Svar óskast sundurliðað eftir árum, aldri, kyni og búnaði.“

Því er til að svara að sundurliðaðar upplýsingar með þeim hætti sem þingmaðurinn óskaði eftir liggja ekki fyrir á landsvísu. Upplýsingarnar sem ég hef eru hins vegar úr Slysaskrá Íslands sem byggja á upplýsingum frá slysadeild LSH. Þær eru byggðar á gögnum frá árinu 2004 þar sem upplýsingar um slys á börnum úr Slysaskrá Íslands voru tengdar við ítarlegri upplýsingar slysadeildar. Gögnin gefa ekki möguleika á öðru en að leita í skrifuðum athugasemdum að snjóþotum, sleðum og vélsleðum. Ekki er því möguleiki að finna ítarlegri upplýsingar um þessi slys fyrir öll árin sem spurt er um án þess að skoða gögn slysadeildar, annarra sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana en slíkt tekur langan tíma og til þess þarf mikinn mannskap.

Í meðfylgjandi upplýsingum er auk þess einungis um að ræða slys sem skráð voru á slysadeild LSH og tölurnar eru því hærri þegar litið er til landsins í heild.

Varðandi komur barna á slysadeildina slösuðust samtals 13 börn á snjóþotum og sleðum árið 2004, átta drengir og fimm stúlkur. Eitt ársgamalt barn, þrír drengir og ein stúlka sem voru þriggja ára, tveir fjögurra ára drengir, tvær fimm ára stúlkur, ein sjö ára stúlka, einn 11 ára drengur og tvö 12 ára gömul börn, drengur og stúlka.

Vegna fyrirspurnarinnar og svaranna er rétt að fram komi að Slysaskrá Íslands geymir upplýsingar um slys þar sem skráð eru meiðsl og upplýsingar um eignatjón í umferðaróhöppum. Einungis eru skráðar lágmarksupplýsingar, annars vegar um slysið og hins vegar um slasaða og ökutæki. Þar eru skráðar eftirfarandi breytur: Staðsetning, dagsetning, tími slyss og tegund, þ.e. vinnuslys, heima- og frítímaslys, flugslys, sjóslys, íþróttaslys, skólaslys og önnur slys. Jafnframt eru áverkar flokkaðir, þ.e. banaslys, mikil meiðsl, lítil meiðsl og skráðar athugasemdir um slys og slasaða einstaklinga.

Af ofangreindu má sjá að Slysaskrá Íslands veitir ekki ein og sér möguleika á upplýsingum um slys sem tengjast snjóþotum, sleðum og vélsleðum. Þær upplýsingar liggja á einstökum stofnunum og eru skráðar með mismunandi hætti. Á LSH er hins vegar sá möguleiki fyrir hendi að skrá svokallaðan vörukóða. Þeir eru um 2.200 talsins og hefur reynslan á slysadeild LSH sýnt að skráning vörukóðana er ófullkomin. Ástæða þess er sú að erfitt er fyrir starfsfólk að finna og skrá kóðann. Áformað er að bæta úr þessu með því að bæta leitarhugbúnaðinn með skráningarkerfi þegar efni leyfa. Þá má og nefna að vörukóðarnir voru þýddir á íslensku árið 1996 og þykir sú þýðing oft og tíðum ekki nægilega lipur. Þýðingin er nú í endurskoðun og er nokkuð á veg komin.

Hv. þingmaður spyr einnig hvort ráðherra telji að grípa þurfi til aðgerða til að auka öryggi barna við notkun á þessum búnaði. Því er til að svara að Árverkni, slysavarnir barna og unglinga við Lýðheilsustöð, hefur staðið fyrir upplýsingagjöf og áróðri til fjölda ára í samstarfi við Umferðarstofu um að börn noti hjálma þegar þau renna sér á sleðum og snjóþotum eins og á hjólum. Í fræðsluefni frá Umferðarstofu, Umferðarskóli ungra vegfarenda, sem sent er öllum forskólabörnum, eru börn og foreldrar fræddir um hvernig á að renna sér, hvar sé öruggt að renna sér og þar er einnig hvatt til hjálmanotkunar. Í fræðsluefni sem dreift er í ung- og smábarnavernd til foreldra 0–6 ára gamalla barna er ítrekað að foreldrar gæti að því að börn renni sér einungis á öruggum svæðum þar sem ekki er hætta á árekstrum við hluti og þau noti hjálma. Einnig er á það bent að börnin eigi að sitja þegar þau renna sér en liggja ekki á maganum til að forðast alvarlega áverka á hálsi og hrygg sem valdið geta lömun.

Ég vil að lokum nefna það að í máli sem þessu skiptir fræðsla og forvarnir miklu máli og ég tel að víða sé vel unnið á þeim vettvangi. Að mínum dómi er ekki efni til að grípa til annarra sérstakra aðgerða en hér hefur verið drepið á en halda þeim áróðri áfram sem við höfum nú þegar hafið. Svo er auðvitað mjög brýnt að hvetja þá sem bera ábyrgð á ungum börnum að axla almennt ábyrgð sína og passa vel upp á börn að leik.