132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Gjaldtaka á Landspítala — háskólasjúkrahúsi.

643. mál
[14:30]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn um mismunun krabbameinssjúklinga sem koma á göngu- og legudeild. Við heyrum oft, hæstv. forseti, talað um mismunun í heilbrigðiskerfinu og mismunandi gjaldtöku og að það þurfi að einfalda og samræma gjaldið. Ég tel að það sé rétt. Það á að samræma gjaldið á þann hátt að gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu sé minni en hún er nú, þar með yrði hún einfölduð. Ef gjaldtakan væri dregin til baka þyrfti ekki að hafa þessar flóknu reglur um jákvæða ívilnun fyrir sjúklinga.

Reglur um gjaldtöku á göngudeildunum hafa verið settar vegna samkeppnissjónarmiða við einkareknar stofur en ég tel að það eigi að horfa á þær út frá sjónarmiðum (Forseti hringir.) sjúklingsins, spítalans sem sparar mikla fjármuni á göngudeildarþjónustunni.