132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:41]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ráðlegg þingheimi að fara varlega í að trúa túlkun hv. þingmanns á ummælum fyrrv. forsætisráðherra og utanríkisráðherra Davíðs Oddssonar.

Okkar afstaða er sú að best hefði verið að þessar þotur væru hér áfram. Sá möguleiki er ekki lengur uppi á borðinu. Ég tel mjög varhugavert og jafnvel hættulegt að ætla að segja upp varnarsamvinnu við núverandi aðstæður þó að við getum ekki útilokað þann möguleika ef engir samningar nást eins og ég gat um í ræðu minni. Við þurfum að tryggja hér búnað sem við sjálfir metum vera fullnægjandi lágmarksviðbúnað, hvort sem það er í formi fastrar viðveru eða annars konar viðbúnaðar. Það er nokkuð ljóst að ekki verður föst viðvera af hálfu Bandaríkjamanna hér. Þá er spursmálið: Hvað getur komið í staðinn sem veitir fullnægjandi vörn að okkar mati og okkar bandalagsþjóða? Það er það sem þessar viðræður snúast um, hv. þingmaður. Það er það sem viðræðurnar snúast um, hvernig verður hægt að koma því fyrir. Það er sú varnaráætlun sem Bandaríkjamenn eru núna að leggja gríðarlega mikla vinnu í að undirbúa og sem Samfylkingin hefur séð sérstaka ástæðu til þess að nota til þess að snúa út úr ummælum mínum um það að við höfum ekki sérþekkingu í gerð slíkra varnaráætlana. Auðvitað höfum við það ekki. Það eru hermennirnir og herforingjarnir sem hafa slíka sérþekkingu og það er það sem þeir eru núna að vinna við og munu gera næstu vikurnar: að reyna að ljúka nýrri varnaráætlun því að varnarsamstarf byggist á því að fyrir liggi varnaráætlun. Það er verið að vinna að því að ljúka gerð nýrrar áætlunar í þessu efni. Nákvæmlega hvað í henni felst vitum við ekki á þessu stigi eða hvernig því verður við komið, viðbragðstími, tegundir af flugvélum, hvaðan þær komi o.s.frv. Aðalatriðið er það að við getum bægt frá ófyrirsjáanlegum ógnum sem hér kynnu að steðja að.