132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:27]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði áðan í ræðu minni að það væri greinilega nokkur skoðanamunur milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í þessum málum og að Framsóknarflokkurinn horfði kannski meira til Evrópu en Sjálfstæðisflokkurinn. Mér segir svo hugur um að setning sem farið hefur inn í ræðu hæstv. utanríkisráðherra sé kannski einhvers konar málamiðlun á milli þessara tveggja flokka. En þar segir, með leyfi forseta:

„Ekki er rétt að útiloka að til endurskoðunar komi á varnarsamningnum eða jafnvel uppsagnar hans.“ — En síðan segir hann: „Í ljósi þess að bandarísk stjórnvöld ítrekuðu skuldbindingar sínar samkvæmt varnarsamningnum var fyrsta skrefið að Ísland og Bandaríkin ættu viðræður um framhald samstarfsins.“

Ég vil því spyrja hv. þingmann, varaformann utanríkismálanefndar, hvort hann telji ekki rétt við þessar aðstæður, þegar ákveðin upplausn er í þessum varnarmálum, að þetta mál fari formlega inn á vettvang Atlantshafsbandalagsins. Þessi tvíhliða varnarsamningur er auðvitað gerður á grundvelli samningsins um Atlantshafsbandalagið og Bandaríkjamenn hafa tekið að sér varnir Íslands í samræmi við hann. Er ekki rétt að fara með málið inn á þann vettvang í stað þess að vera með það í þeim farvegi sem það er í núna, einvörðungu í þessum tvíhliða viðræðum?

Hitt sem ég vil spyrja um af því að ég fékk ekki svar við því áðan: Getur varaformaður nefndarinnar svarað hvernig á því stendur að við höfum ekki fengið inn í þingið skriflegar skýrslur utanríkisráðherra síðan í apríl 2004 þegar Halldór Ásgrímsson var utanríkisráðherra? Við höfum ekki fengið neinar skriflegar skýrslur um það sem verið er að vinna í utanríkisráðuneytinu síðan sjálfstæðismenn settust inn í það ráðuneyti. Slíkar skýrslur gefa okkur auðvitað góða innsýn í þá stefnumörkun sem þar fer fram (Forseti hringir.) en við höfum ekki fengið hana.