132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:00]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég biðst afsökunar ef ég hef með einhverjum hætti gert Frjálslynda flokknum rangt til í ræðu minni. Ég verð að játa að ég hafði ekki kynnt mér efni þeirrar greinar sem hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson vísaði til og verð að segja að það hefur farið fram hjá mér.

Á hinn bóginn held ég að vegna þeirrar hugmyndar sem hann nefndi um hugsanlegt varnarsamstarf við aðrar þjóðir Atlantshafsbandalagsins en Bandaríkjamenn á sviði varnarmála að ef menn nálgast þessi mál kalt og yfirvegað hljóti menn að komast að þeirri niðurstöðu að slíkir kostir hljóti að vera aftar í röðinni en varnarsamstarfið við Bandaríkin, einfaldlega vegna þess að Bandaríkin er það ríki sem hefur langöflugustu tækin, öflugasta viðbúnaðinn, öflugasta heraflann til að aðstoða aðra í þessum efnum. Evrópa er ekki og hefur ekki verið aflögufær á sviði varnarmála. Evrópumenn hafa byggt varnir sínar á samstarfi við Bandaríkjamenn vegna þess að Evrópuríki innan NATO hafa einfaldlega ekki haft þann herafla og þau tæki sem nauðsynleg hafa þótt til að halda uppi fullnægjandi vörnum.

Hins vegar verð ég að segja að ef sú staða kemur upp að ekki sé raunverulega grundvöllur fyrir áframhaldandi varnarsamstarfi við Bandaríkin þá hljóta menn auðvitað að skoða aðra kosti. Menn hljóta að skoða aðra kosti. En fram að þessu og raunar áfram álít ég að varnarsamstarf (Forseti hringir.) við Bandaríkin sé heppilegasta leiðin.