132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Vísinda- og tækniráð.

744. mál
[15:21]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er rangt að ekki hafi komið inn nýtt fé til háskólanna. Það hefur komið verulega mikið nýtt fé til háskólanna í landinu. Það er ekkert smáræði að það skuli hafa aukist um 80% að raungildi á þessum tíma.

Hvers vegna hefur það gerst? Það hefur gerst vegna þess að okkur hefur tekist að auka verðmætasköpun í landinu gífurlega með efnahagsstefnu sem hefur skipt sköpum fyrir landið, sem stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt ótæpilega. Ef við hefðum ekki fylgt þeirri efnahagsstefnu hefðum við ekki getað gert þetta. Þar er því augljóst samband á milli, þeirrar efnahagsstefnu sem rekin hefur verið og aukningar sem við höfum getað sett til menntamála og heilbrigðis- og velferðarmála. Þetta hafa verið aðaláhersluþættir ríkisstjórnarinnar.

Stuðningur við nýsköpun með skattalegum hætti er til athugunar. Það er vandkvæðum bundið en það er ekki útilokað. Það er ljóst. Ríkisstjórnin hefur ekki útilokað það. En það kemur líka til greina að halda áfram að auka fé til samkeppnissjóðanna. Í báðum tilvikum eru það útgjöld fyrir ríkissjóð. Ef það er hentugra fyrir atvinnulífið og atvinnulífið kýs frekar að það sé gert með sköttum þá höfum við alls ekki útilokað það. En vandkvæðin koma m.a. fram í því að það er ekki hægt að gera án takmarkana. Með því viðurkenna menn vandkvæðin á slíkri leið. Ég hef ekki fundið þau upp. Það hafa allir viðurkennt þau en við munum vinna áfram að málinu og mun koma niðurstaða í það fljótlega.