132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Breyting á IV. viðauka við EES-samninginn.

686. mál
[16:46]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Með þeirri þingsályktunartillögu sem ég mæli hér fyrir er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2005, um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/77/EB, um að auka framleiðslu rafmagns með endurnýjanlegum orkugjöfum til notkunar á innri raforkumarkaði.

Gerð er grein fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni og er hún prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeirri tilskipun sem hér um ræðir. Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Hvað varðar efnisatriði þeirrar ákvörðunar sem hér um ræðir nægir að meginstefnu til að vísa til greinargerðar er fylgir tillögunni, auk gerðarinnar sjálfrar. Markmið tilskipunarinnar er að hvetja til frekari notkunar á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Er þetta gert í því skyni að freista þess að draga úr umhverfisáhrifum raforkuframleiðslu sem ekki byggist á endurnýjanlegum orkugjöfum.

Í tilskipuninni er gert ráð fyrir að hvert aðildarríki setji sér markmið um að auka raforkuframleiðslu sem byggir á endurnýjanlegum orkulindum. Þau markmið sem ríkin setja sér eru þó ekki bindandi. Hefur það því engar afleiðingar í för með sér þó að markmiðin náist ekki.

Frumvarp til breytinga á lögum til innleiðingar á tilskipuninni er í undirbúningi hjá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu. Nauðsynlegt er að gera breytingar á lögum varðandi tilkynningar um hlutfall raforkuframleiðslu úr endurnýjanlegum orkulindum og vottorð um uppsprettu orkunnar.

Ég legg til, frú forseti, að máli þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umræðu og hv. utanríkismálanefndar.