132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Framhaldsskólar.

711. mál
[21:11]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil sameinast í þeirri gleði sem skein skært úr ræðu hv. þingmanns yfir þessu frumvarpi. Ég tel mikilvægt og brýnt að þetta fari í gegn. Ég vil reyndar fagna því sérstaklega sem kom fram í lokin varðandi það sem hv. þingmaður ræddi um miðstýringu. Ég tel af og frá að mikil miðstýring hafi verið í gangi en engu að síður fagna ég því að hv. þingmaður sé reiðubúin að fara í þá vegferð að losa um t.d. námskrárnar sem hafa verið sérstaklega til skoðunar núna og verða til skoðunar í samvinnu Kennarasambands Íslands og ráðuneytisins í áðurnefndu tíu punkta samkomulagi. Fram hafa komið hugmyndir, sem ég tel afar fýsilegt að verði skoðaðar gaumgæfilega, um að losa um kjarnann þannig að frelsi skólanna verði meira til að móta sér námskrá. Ég vonast til að ég og hv. þingmaður getum sammælst um það að auka svigrúmið og færa það meira til skólanna.

Varðandi það að samræmdu prófin hafi verið sérstakt baráttumál Sjálfstæðisflokksins þá vil ég geta þess sérstaklega að þegar samræmdu prófin voru samþykkt á sínum tíma í þinginu greiddi enginn flokkur því mótatkvæði. Vissulega var Samfylkingin ekki til þá en enginn þingmaður forvera hennar á þingi, m.a. nokkrir sem enn sitja á þingi, greiddi atkvæði gegn samræmdu prófunum. Vissulega hafa flokkar skipt um nafn og kennitölu í millitíðinni og heita núna nýju nafni og nýtt og öflugt fólk er sest á þing, eins og hv. þingmaður sem hefur sýnt mikinn metnað varðandi menntamálin. Ég fagna því einnig að við erum sama sinnis varðandi samræmdu prófin. Við vorum hvorugar á þingi þegar þetta var samþykkt á sínum tíma og þess vegna vil ég undirstrika að aðkoma okkar er með svipuðum hætti hvað það varðar að við viljum samræmdu prófin í burtu, því að við teljum, eða mér heyrðist það á hv. þingmanni, að þau séu til þess fallin að minnka sjálfstæði skólanna varðandi skólastefnu sína og mótun.