132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Ástandið í Palestínu.

[15:24]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Mig minnir að það sé u.þ.b. vika síðan síðast var gerð sjálfsmorðssprengjurás í Tel Aviv þar sem fórust að mig minnir níu eða tíu manns og margir tugir særðust. Hamas-hreyfingin, sem nú hefur unnið sigur í þingkosningum í Palestínu, vildi ekki fordæma þann atburð. Það gerði forseti Palestínu hins vegar, Mahmud Abbas. Hann fordæmdi þann voðaverknað og það er auðvitað eðlilegt að gera þá kröfu til lýðræðislega kjörinna ríkisstjórna að þær fordæmi hryðjuverk.

Afstaða Evrópusambandsins og vestrænna ríkja í þessu máli hefur verið sú að meðan ríkisstjórnin í Palestínu, hin nýja, neitar að fordæma hryðjuverk, neitar að viðurkenna tilverurétt Ísraelsríkis og neitar að virða gerða samninga sem gerðir hafa verið í nafni Palestínu til þessa, sé ekki hægt að eiga við hana samskipti. Þetta er sameiginleg niðurstaða Evrópusambandslandanna en einnig landa eins og Noregs og fleiri sem standa utan við Evrópusambandið, alveg óháð því í hvaða stjórnmálahreyfingum ríkisstjórnarflokkarnir sem hlut eiga að máli starfa.

Nú er það þannig, virðulegi forseti, að Íslendingar eru ekki með beinan fjárhagslegan stuðning og hafa ekki verið við yfirvöld í Palestínu. Við höfum veitt nokkurn stuðning til flóttamannahjálparinnar þar, að mig minnir 100 þúsund dollara á þessu ári, og því verður að sjálfsögðu haldið áfram. Aðstaða okkar er að því leyti til öðruvísi en ýmissa annarra að við höfum ekki veitt þessum aðilum stuðning þó að við höfum auðvitað reynt í gegnum alþjóðleg hjálparsamtök og með öðrum hætti að láta gott af okkur leiða á þessu svæði.

En ég spyr þingmanninn: Finnst honum óeðlilegt að gera þá kröfu til lýðræðislega kjörinnar ríkisstjórnar að hún fordæmi hryðjuverk?