132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

402. mál
[16:31]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það kom ekki fram í þeim andsvörum sem hv. þingmaður fór í við mig hvaða afstöðu hann tekur til efnis þessa máls. Ég bendi hv. þingmanni á að tilgangurinn með því frumvarpi sem við erum að ræða er m.a. sá að fella niður greiðsluþátttöku Ríkisútvarpsins við rekstur Sinfóníuhljómsveitarinnar. Hvað þýðir það? Það þýðir að verið er að létta álögum af Ríkisútvarpinu sem hv. þingmaður telur að séu miklar. Af hverju tekur hann þá bara ekki undir það að slíkt sé heppilegt og jákvætt? Að minnsta kosti ætti hann að gera það miðað við þau orð sem hér voru látin falla.

Ég vil síðan benda hv. þingmanni á það út af því sem hér kom fram að nefndin hefur aflað sér þeirra upplýsinga og það hefur komið fram í tengslum við vinnslu þessa máls að fullur vilji er milli Sinfóníuhljómsveitarinnar annars vegar og Ríkisútvarpsins hins vegar að halda áfram því ágæta samstarfi sem þessar tvær stofnanir hafa haft á síðustu áratugum. Það hefur komið fram að menn vilja frekar auka þetta samstarf en að minnka það. Það hefur líka verið um það rætt að gerður sé sérstakur samningur um slíkt eins og greinir í nefndarálitinu. Þessi atriði ættu því að vera öll frágengin í þessu máli.

Við skulum sjá, hv. þingmaður, hvað fer fram í umræðunum sem ég vona að verði málefnalegar enda sé ég að einn mjög málefnalegur hv. þingmaður er að gera sig kláran í umræðu um væntanlega þetta mál.