132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

402. mál
[17:31]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég hyggst taka upp þráðinn þar sem hann féll úr hendi hv. þm. Ögmundar Jónassonar undir lok ræðu hans.

Alþingi verður að bera virðingu fyrir sjálfu sér. Ef það sýnir það ekki í verki er ekki hægt að ætlast til þess að aðrir beri virðingu fyrir því. Við höfum sett okkur hérna ákveðnar vinnureglur. Þær eru öðruvísi en þær reglur sem aðrar stofnanir samfélagsins fara eftir að því leyti að þær eru hluti af lagarammanum sem samfélagið gengur eftir. Samkvæmt þingskapalögum er það alveg ljóst að mál koma ekki hér til 2. umr. fyrr en þau eru afgreidd úr nefnd. Það er auðvitað ýmiss konar háttur sem nefndarformenn hafa á því að skipa vinnu nefndarinnar þannig að hagkvæmast sé. Yfirleitt er það þannig í þeim nefndum sem ég hef setið á síðustu 15 árum, og ég hef setið í öllum nefndum þingsins utan einni, að fundur er boðaður með dagskrá. Á dagskránni eru tilteknir liðir sem á að ræða og þar koma fram þau mál og þau númer sem þau hafa fengið sem þingskjöl. Menn ræða því með skipulegum hætti þau mál sem eru undir á nefndarfundum hverju sinni. Sum mál eru tekin fyrir mörgum sinnum, flókin og erfið stundum, þung í vöfum, en að lyktum eru öll mál afgreidd formlega.

Það hefur komið fram í umræðunni hér af hálfu talsmanns Samfylkingarinnar, hv. þm. Marðar Árnasonar, í þessu máli, að þetta mál var aldrei afgreitt formlega út úr hv. menntamálanefnd. Mig langaði þess vegna til þess að spyrja formann nefndarinnar, hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson hvort hann beri brigður á það. Ég tel að við getum ekki verið að ræða hér mál, hversu léttvægt sem það er — og tek það þó fram, frú forseti, að ég er ekki að halda því fram að við séum nokkru sinni að ræða léttvæg mál — nema það liggi alveg klárt fyrir að þau uppfylli öll skilyrði laganna. Skilyrði laganna eru margvísleg. Framlagning máls er háð undirskrift forseta lýðveldisins. En endurkoma máls inn í þingsalinn til 2. umr. er algjörlega háð því að það sé formlega afgreitt í menntamálanefnd af því að hér er slíkt mál undir.

Ég vil spyrja hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson hvort svo hafi verið gert og hvort hann geti fullyrt það með óyggjandi hætti. Það hefur komið fram hérna hjá þingmönnum stjórnarandstöðunnar að það var ekki gert. Hv. þingmaður sem ég nefndi hér áðan, Mörður Árnason, lýsti því alveg skýrt yfir að það hefði verið af þeim sökum sem minni hlutinn skilaði ekki sérstöku áliti eins og jafnan er venjan eða eftir atvikum er þá með meiri hlutanum á áliti. Því var ekki til að dreifa í þessu máli vegna þess að málið var aldrei afgreitt út úr nefndinni. Til hvers erum við þá að ræða hér mál sem hefur ekki verið afgreitt út úr nefndinni? Það væri væntanlega hægt, þess vegna eftir öðrum leiðum að bera brigður á, ef málið verður að lokum samþykkt frá þinginu, að það sé gert með lögformlegum hætti. Þess vegna vænti ég þess að undir þessari umræðu muni koma fram kröfur um að þetta verði skoðað.

Ég spyr, frú forseti, hvar er hv. formaður nefndarinnar? Hann hljóp hér eins og eldibrandur úr salnum samstundis sem honum varð hugsanlega ljóst að stjórnarandstaðan hefði rétt fyrir sér, að málið hefði ekki verið afgreitt. Ég hef ekki haft það fyrir sið að láta flytja menn í böndum hér í þingsalinn til þess að hlýða á það mál sem ég hef að flytja eða hlusta á ákveðnar spurningar ef það er óhjákvæmilegt. — En nú kippist hjarta mitt við af gleði því að hv. þingmaður og formaður nefndarinnar er mættur hér í salinn. Ég ætla ekki að halda þá ræðu sem ég hef flutt hér að honum fjarstöddum aftur … (Gripið fram í.) Hv. þingmaður kallar fram í að hann hafi verið að hlusta á mig eftir allt saman og það gleður mig. (Gripið fram í.) Það hefur þá væntanlega ekki farið fram hjá honum að ég varpaði fram hérna ákveðnum spurningum um formlegan umbúnað málsins sem ég óska eftir að hv. þingmaður svari. Það kemur fram í frammíkalli hjá formanni nefndarinnar að hann hafi verið æsispenntur undir ræðu minni. Ég get þá trúað hæstv. forseta fyrir því að blóð mitt þýtur líka örar um æðar við það eitt að sjá hann og gera mér grein fyrir því að hann hyggist svara mér í þessu máli, hann muni svara spurningu minni hér á eftir.

Það eru aðrar spurningar sem ég vil líka spyrja hæstv., hv. þingmann — því að vissulega er hann ekki orðinn hæstvirtur enn þá þó að vissulega mætti halda því fram að ekki mundi hann fara verr með þann titil en ýmsir aðrir, án þess að ég ætli að nefna nein nöfn sérstök í því sambandi — en í síðustu viku vorum við hér í mikilli umræðu um Ríkisútvarpið og eitt af því sem ég gagnrýndi harkalega var að ekki lægi ljóst fyrir hver eiginfjárstaða og fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins væri. Mér fannst það heldur linkulegt af talsmönnum ríkisstjórnarinnar að geta ekki svarað til um hvernig fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins er þegar fyrir liggur að það á að fara að búa til úr því hlutafélag með lögum.

Frú forseti. Ekki er undrun mín minni að sjá það nú í 2. umr. um Sinfóníuhljómsveit Íslands að það liggur heldur ekki ljóst fyrir hvort búið er að hnýta þá lausu fjárhagslegu enda sem tengjast þeim breytingum á rekstrarlegum högum hennar sem lagðar eru til í þessu frumvarpi. Sinfóníuhljómsveit Íslands eða framkvæmdastjóri hennar hefur haldið því fram með ærnum rökum fyrir nefndinni og líka opinberlega að óuppgerðar skuldir Ríkisútvarpsins við Sinfóníuhljómsveitina séu 650 miljónir. Hefur menntamálanefnd gengið úr skugga um þetta? Mig langar að spyrja hv. formann nefndarinnar: Hver er skuld Ríkisútvarpsins við Sinfóníuhljómsveitina og með hvaða hætti verður hún gerð upp? Ég spyr að gefnu tilefni vegna þess að allar ræður hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins um Ríkisútvarpið tengdust því að það þyrfti að gera það liprara á skriðnum til þess að unnt væri að spara fé og reka það með hagkvæmari hætti af því að því er féskylft eins og við vitum. Mér finnst ekki hægt þegar verið er að fjalla um Sinfóníuhljómsveit Íslands eigi að skilja við hana með sama hætti.

Ég ætla ekki að hafa langt mál um átökin um fiðluna miklu, Guarnerius-fiðluna. Það hefur komið fram að hún er gríðarlegra upphæða virði og þess vegna er hún eins konar tákn fyrir þá stöðu sem er komin upp í þessu máli. Hún er ákveðið tákn um vinnubrögðin og flaustrið sem er á þessu. Menn hlaupa í að gera breytingar á þessum tveimur merku menningarstofnunum íslenska samfélagsins en þeir hafa ekki fyrir því í asanum og óðagotinu að gera sér grein fyrir því hver fjárhagsleg staða þeirra er þegar verið er að skilja þessar tvær stofnanir í sundur. Því legg ég áherslu á að fá svör við því hvort menntamálanefnd hafi gengið eftir því að hinn fjárhagslegi aðskilnaður liggi alveg ljós fyrir, hver eigi hvað og hver skuldi hverjum og hve mikið. Það finnst mér vera lágmarksspurningar í þessari umræðu.

Þegar maður skoðar öflugt samfélag eins og Ísland, sem býr að vaxandi höfuðborg, land sem er komið í alfaraleið, sem er sótt hingað heim af fjölda erlendra ferðamanna blasir það við að það er eðlilegt að þrjár dýrustu perlurnar í menningarfesti slíks samfélags séu stofnanir eins og sinfónía, þjóðleikhús og listdansflokkur. Við getum bætt fjórðu perlunni við sem er menningarlega sinnað ríkisútvarp. Að undirstöðum allra þessara stofnana er með einhverjum hætti vegið um þessar mundir af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ekki ætla ég að eyða tímanum í að fjölyrða um örlög Listdansflokksins og þeirrar menntunar sem liggur að baki honum. Við höfum þegar tekið þátt í því fyrr á vetrinum að ræða hversu óhönduglega hæstv. menntamálaráðherra hefur tekist til þar.

Ekki ætla ég heldur að fjölyrða um Ríkisútvarpið, ég ætla bara að einskorða mál mitt hér við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég velti því fyrir mér þegar verið er að gera breytingar á rekstrarfyrirkomulagi og högum Ríkisútvarpsins, sem beinlínis er skilgreint af hálfu þeirra sem bera málið fram í þinginu að það eigi ekki síst að verða til þess að auka menningarlegt inntak Ríkisútvarpsins, hvers vegna menn byrja þá á þessum aðskilnaði. Ég tel nefnilega að það sé ekki endilega rökrétt eða sjálfgefið og ég er ekki einu sinni viss um að það sé skynsamlegt að menn byrji þessa ferð með því að skera á tengslin milli Sinfóníuhljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins. Hver eru rökin á bak við það? Þau eru bara ein, alltaf þessi sömu rök sem koma fram varðandi nauðsynina á því að breyta Ríkisútvarpinu, það vantar fjármuni. Í rösklega 20 ára stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins í menntamálaráðuneytinu hafa fjárveitingar til Ríkisútvarpsins verið svo skornar við nögl að það er stórskuldugt og eins og fram hefur komið í umræðu síðustu vikna mundi það ekki eiga fyrir skuldum sínum ef gengið væri að því sem nýstofnuðu hlutafélagi.

Ástæðan fyrir því að þetta frumvarp hér um Sinfóníuhljómsveitina er lagt fram er einfaldlega sú, eins og kemur fram í frumvarpinu, að það á að losa Ríkisútvarpið við þá kvöð að þurfa að greiða fjórðung af rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitarinnar. Vel má skilja vilja stjórnenda Ríkisútvarpsins sem búa við þann nauma fjárhag sem þeim er ætlaður af ríkisstjórninni. Vel má skilja að forstöðumenn þess og yfirmenn geri það sem í þeirra valdi stendur til þess að draga úr slíkum kostnaði. En það finnast mér ekki vera hin réttu rök og ég tel að afleiðingar slíkrar gerðar séu ekki fallnar til þess að gera Ríkisútvarpið að menningarlegri stórstofnun eins og það á að vera.

Þegar við horfum til helstu höfuðborga heimsins, a.m.k. á Vesturlöndum, hefur það einkennt ákaflega margar þeirra að þar er að finna eina stóra og öfluga sinfóníuhljómsveit sem gjarnan er rekin í samstarfi viðkomandi höfuðborgar og viðkomandi ríkis og það er fullkomlega eðlilegt. Þessi háttur var hafður hér á á sínum tíma. Að vísu var það þannig, eins og fram kom hér í ræðum áðan, að forsaga þessara tengsla Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitarinnar var ekki síst sú að það þurfti fjármagn til þess að reka Sinfóníuhljómsveitina og þessi háttur var tekinn upp vegna þess að það var litið svo á að þarna væri um að ræða nátengdar stofnanir, það var litið svo á að Sinfóníuhljómsveitin væri partur af þeirri menningarlegu ávöxtun arfleifðarinnar sem skiptir svo miklu máli fyrir menningarþjóð eins og Íslendinga.

Væri það raunverulega ætlunin að ýta undir Ríkisútvarpið sem bólvirki menningar á sviði tónlistar á Íslandi hefðu menn gert þveröfugt við það sem liggur fyrir í frumvarpinu. Þá hefðu menn frekar reynt að hnýta fastar tengslin á milli Ríkisútvarps og Sinfóníuhljómsveitarinnar. Ég er ekki eini maðurinn sem er þessarar skoðunar. Hún hefur komið fram hjá ýmsum af helstu foringjum fortíðarinnar hjá Sjálfstæðisflokknum sem enn eru á dögum og hafa af því nokkuð amstur en sennilega einnig gaman af að uppfræða þjóðina daglega um viðhorf sín, eins og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson, gerir í leiðurum blaðsins sem hann stýrir. Í nýlegum leiðara fjallar hann einmitt um tengsl Sinfóníuhljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins. Hann segir að miklu rökréttara virðist að byrja á hinum endanum, þ.e. að treysta betur þau tengsl sem eiga að hans mati að vera milli Ríkisútvarps og Sinfóníuhljómsveitar. Í leiðaranum sem ég hef leyft mér, virðulegi forseti, að vísa til segir fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, með leyfi forseta:

„Hitt er óskiljanlegt hvers vegna byrja á nýjan tíma í rekstri þess með því að rjúfa þessi tengsl. Öll rök sýnast falla að hinu að auðga þau að innihaldi.“

Frú forseti. Þetta er auðvitað mergurinn málsins. Það væri Ríkisútvarpinu til framtíðar mikill akkur og fengur í að hafa sem sterkust tengsl við Sinfóníuna. Áratugum saman hefur það verið fastur liður og þó tiltölulega tíðari á árum áður að Ríkisútvarpið útvarpaði í gegnum hljóðvarpið reglulega frá sinfóníutónleikunum. Það var hluti af því endurgjaldi sem Ríkisútvarpið fékk fyrir fjórðungsframlag sitt til rekstrarfjár hljómsveitarinnar sem lög, sem hér er verið að breyta, gerðu ráð fyrir. Þetta eru svipuð tengsl og við sjáum í mörgum löndum í kringum okkur. Þar er veigamikið hlutverk sérhvers ríkisrekins almannaútvarps að miðla efni af þessu tagi. Þess vegna get ég ekki annað en tekið undir með fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins með að það er öfugsnúið að hafa þennan háttinn á, eins og hann segir svo snilldarlega í greininni sem ég vísa til sem birtist fyrir tíu dögum í Fréttablaðinu. Öll rök hníga að því að það hafi einmitt átt að auðga tengsl þessa tveggja.

Það hefur komið fram að mismunandi skoðanir eru á hvort rétt sé að heimila öðru þeirra tveggja sveitarfélaga sem koma að rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar að skera á þau tengsl. Ég verð að segja að ég er ekki sammála öllum þeim viðhorfum sem sett hafa verið fram í því efni. Ég skil það vel að Seltjarnarnesbær vilji losna undan þessari kvöð. Ýmis rök hníga að því. Þegar Seltjarnarnesbær gekkst undir þessar skuldbindingar árið 1982 var það í þeirri trú að fleiri sveitarfélög mundu lyfta undir þennan bagga. Það gerðist ekki. Það má, eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar, færa gild rök að því að eðlilegast, til að standa straum af kostnaði menningarstofnunar af þessu tagi, sé að fyrst og fremst komi tveir aðilar að verki, þ.e. ríkisvaldið og höfuðborgin.

Ríkisvaldið og höfuðborgin hafa þegar öflugt samstarf á sviði menningar og lista sem kristallast t.d. í hinni ágætu Listahátíð sem hér er orðin fastur liður í þjóðlífinu. Hún hefur orðið til að draga hingað í vaxandi mæli menningarferðamenn sem koma til landsins til að bergja af menningarbrunnum þjóðarinnar. Það er óhætt að fullyrða að Sinfónían og íslensk tónlist er einn af þeim brunnum. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að þessar tvær stofnanir samfélagsins komi að þessu.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson flutti afbragsgóða ræðu áðan. Sérstaklega þótti mér snilldarlegur sá kafli ræðunnar þar sem hann færði rök að því að ólíklegt væri að sá sparnaður sem fram kemur í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis næðist fram. Hv. þingmaður benti á að samkvæmt upplýsingum sem þar koma fram er gert ráð fyrir á fjárlögum yfirstandandi árs spari Ríkisútvarpið 123 millj. kr., þ.e. með því að skera á þessi fjárhagslegu tengsl. Í fjárlagafrumvarpinu sem samþykkt var síðast, fyrir það ár sem nú er hafið, er þessi upphæð 138 millj. kr.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson gaf sér að Ríkisútvarpið, undir nýrri forustu og hugsanlega innan nýs lagaramma, mundi ekki hverfa frá því að rækja það menningarlega hlutverk sitt að miðla klassískri tónlist fyrir tilstilli Sinfóníuhljómsveitarinnar til þjóðarinnar. Nú er ég að vísu ekki algerlega sammála hv. þingmanni. Ég er ekki viss um að það verði svo í framtíðinni. Röksemdina fyrir því sæki ég einmitt í röksemdafærslu hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Hann benti eðlilega á að ekki væri hægt að gera ráð fyrir að Ríkisútvarpið fengi afnot af flutningi og tónverkum Sinfóníuhljómsveitarinnar án endurgjalds. Miðað við það sem höfum heyrt í umfjöllun um ýmiss konar skyld mál og tengd þessu er líklegt að Ríkisútvarpið þyrfti að greiða tugi milljóna á ári hverju ef það ætlaði að halda þeim tengslum í svipuðu formi og áður. Það er hins vegar alls óvíst.

Ef við horfum framan í nýja tíma þar sem búið er að háeffa Ríkisútvarpið og Sjálfstæðisflokkurinn heldur áfram að skera af því þann þrönga fjárhagslega stakk sem þrælsaumaður er utan um það í dag þá spyr ég hv. þm. Ögmund Jónasson og formann nefndarinnar, sem hefur upplýst það í þessari umræðu að hann er ákaflega menningarlega sinnaður og telur að Ríkisútvarpið eigi að gegna þessu hlutverki: Hvar á Ríkisútvarpið þá að fá fjármunina til að greiða Sinfóníunni fyrir flutning á þessum tónleikum? Það er hvergi gert ráð fyrir því. Það er alls ekki hægt að sjá nokkur merki þess í þeim gögnum sem fylgja þessu frumvarpi eða í þeim umsögnum eða skjölum sem í því koma fram. (SKK: Samningurinn tekur á þessu.) Það þarf að borga fyrir samninginn, frú forseti.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kallar fram í að gera eigi samning um flutning þessa efnis milli Sinfóníuhljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins. En skilur ekki hv. þingmaður að það þarf að greiða fyrir það efni? Það kemur hvergi fram hvert eigi að sækja það fé. Hvert á að sækja það fé eða með hvaða hætti? Það er hugsanlegt að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson finni upp einhverja aðferð til að fjármagna Sinfóníuhljómsveitina. Hann er snjall maður. Hann hefur sýnt það á síðustu tveimur árum að hann hefur komið fram með tvær gersamlega andstæðar hugmyndir um fjármögnun Ríkisútvarpsins. Hann var með frábæra hugmynd í fyrra, sem ég skil því meir sem ég kynnist og skoða hana betur, þ.e. að Ríkisútvarpið yrði fjármagnað með tengslum við persónuafslátt tekjuskattskerfisins. Síðan sáum við að hv. þingmaður greiddi atkvæði með allt öðru, með nefskattinum.

Ég hef áður látið hnútasvipu nefskattsins og röksemdafærslu hans frá því í fyrra ríða á hrygglengju hv. þingmanns og ætla ekki að angra geð hans með því frekar í dag. En það er samt rétt að rifja upp að hv. þingmaður gat í fyrra fundið 16 tölusetta liði með athugasemdum og andmælum gegn nefskattinum sem hann taldi allsendis ófæran. Hv. þm. Pétur H. Blöndal taldi hann ekki 10 aura virði. Þeir samþykktu þann skatt báðir í dag. Ég gat ekki betur séð. Hugkvæmnin sem hv. þingmaður hefur sýnt í umræðum um þessi mál er slík, að það er aldrei að vita nema hann geti dorgað úr djúpum huga síns einhvers konar aðferð til að fjármagna Sinfóníuhljómsveitina.

Klárt er að minnsta kosti að í nefndaráliti sem hv. þingmaður hefur mælt fyrir er talað um að þessi tengsl eigi að halda áfram. Hins vegar er hvergi sagt hvert eigi að sækja fjármagnið til þess að greiða það. Það er allt á sömu bókina lært þegar kemur að þessum málaflokki. Það er ekki einu sinni gerð tilraun til að slá á hvað þetta kostar.

Hv. þingmaður hefur ekki þreyst á að upplýsa menn um að hádegisverðurinn er aldrei ókeypis. Það er ekkert ókeypis í þessum heimi. Það er ekki hægt, af hálfu hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins, að koma með sveðjuna og skera á þessi tengsl með ýmsum rökum en ætla síðan að segja að allt eigi að vera eins og það var áður. Í reynd er hv. þingmaður að segja að kostnaðurinn vegna þessa samstarfs minnki ekkert. Það á bara að borgað með allt öðrum hætti, seinna, einhvern tímann inni í framtíðinni. Það er aldrei nein fyrirhyggja í þessum efnum. En ég ætla að vera heiðarlegur við hv. þingmann. Það er ekki honum að kenna. Hann ber enga sök á því. Hins vegar hefði hann mátt hafa svolítið meiri metnað fyrir þessum málaflokki. Það hefur örugglega komið fram í þessari umræðu að hv. þingmaður finnur sig í að vera talsmaður í menningarmálum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Enda fyrir löngu komið að því, eins og ég sé á hæstv. félagsmálaráðherra að hann er mér algerlega sammála um, að sá flokkur kæmi sér upp einhverri menningarstefnu.

Ég veit að einhvers staðar í djúpum hjarta hv. þingmanns hefur kviknað hjá honum löngun til að verða menntamálaráðherra. Það er fullkomlega eðlilegt. Hann er ekki verri en sumir aðrir sem þar hafa setið fyrir hönd hans flokks. Sennilega yrði hann miklu betri en obbi þeirra. En þá verður hv. þingmaður líka að sýna ákveðinn metnað. Því miður, ef hann ætlar að renna í slóð fyrrverandi ráðherra menntamála sem úr Sjálfstæðisflokknum hafa komið, er fortíðin þeirra ekki glæsileg til að byggja á fordæmi inn í framtíðina.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson rifjaði upp grein eftir Jón Þórarinsson, sem var listráðunautur Ríkisútvarpsins, eitt af okkar fremstu tónskáldum sem við á hinu háa Alþingi settum í heiðurslaunalistamannaflokk fyrir nokkrum árum. Hann ritaði grein í Morgunblaðið og lýsti því hvers konar metnaðarleysi hefur einkennt stefnuna, annars vegar gagnvart þessu samstarfi Ríkisútvarpsins og Sinfóníunnar og hins vegar gagnvart tónlistarlegri arfleifð landsins almennt. Í þeirri grein vakti Jón Þórarinsson athygli manna, þar á meðal mína, á hinum ágæta samningi sem átti að vera grunnurinn að samstarfi Sinfóníuhljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins. Þar kemur glöggt fram að þetta samstarf átti að vinna á báða vegu, þ.e. það átti ekki bara að vera þannig að Ríkisútvarpið greiddi fjórðunginn af kostnaði heldur kom ákveðið endurgjald til baka. Þetta endurgjald má segja að hafi byggst á tveimur höfuðþáttum. Í fyrsta lagi var heimild til að útvarpa beint eða síðar upptökum af öllum áskriftartónleikum hljómsveitarinnar og líka öllum öðrum tónleikum sem á hennar vegum voru haldnar.

Hvað heldur hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson að kosti í dag að fá að senda út til heillar þjóðar tónleika hjá Sinfóníuhljómsveit, þótt hún sé lítil, sem hefur samt unnið sér sess sem ein af framsæknustu Sinfóníuhljómsveitum veraldar? Hún hefur á undanförnum árum fengið margvíslegar viðurkenningar og verðlaun fyrir þá tónlist sem hún hefur framleitt og miðlað í gegnum diska. Ég þarf ekki að rifja það upp fyrir hv. þingmanni. Hann er vel að sér í menningarefnum eins og ég hef áður vottað um.

Þetta var annað meginstefið í þessum samningi, að Ríkisútvarpið mátti senda beint frá öllum tónleikum. Hitt var að þeim mátti sjónvarpa líka. Man hv. þingmaður eftir að Ríkisútvarpið hafi notfært sér þennan samning svo að einhverju nemi? Þá er ég að tala um seinni liðinn, þ.e. heimildina til sjónvörpunar? Nei. Þó er það svo að Ríkisútvarp sem tekur sig alvarlega, eins og ríkisútvörpin í nágrannalöndunum gera, leggur metnað sinn í að miðla með þessum hætti tónlistararfleifðinni. Það hefur alls ekki verið gert. Það er þess vegna sem ég rifja það sérstaklega upp undir lok ræðu minnar að Þorsteinn Pálsson, sem var á sokkabandsárum hv. formanns menntamálanefndar, ljós pólitísks lífs hans. Hann komst til vits og þroska á þeim árum sem sá ágæti stjórnmálamaður veitti Sjálfstæðiflokknum forustu. Hann hefur sérstaklega gert að umræðuefni hvílíkt metnaðarleysi það er af hálfu Ríkisútvarpsins að hafa ekki notfært sér þessi tengsl. Ég get ekki annað en tekið undir það.

Það er algengt í löndunum í kringum okkur að metnaðarfullar ríkisútvarpsstöðvar reki sinfóníuhljómsveitir, ekki bara að hluta eins og gerist hér á landi heldur að öllu leyti. Rökin liggja í augum uppi. Hér er um að ræða tónlist sem langlíklegast er að ríkisrekið útvarp geti skilað í ýmsu formi áfram úr tónlistarsölunum til fólksins í landinu. Ef hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og meðreiðarsveinar hans, sem hér hafa farið heldur á brokkinu í gegnum þingið við að reyna að reka þetta frumvarp í gegnum salina, meina eitthvað með tali sínu um hið nýja Ríkisútvarp, eins og það er orðað stundum, sem eigi að sinna menningarlegri hlið samfélagsins, ættu þeir auðvitað að fara í slóð Þorsteins Pálssonar. Ég tel hugsanlegt að hæstv. samgönguráðherra hefði gert það ef hann hefði verið settur yfir annað en að bæta samgöngur landsmanna, sem hann hefur reyndar gert með miklum ágætum. (Samgrh.: Og er nú ekki lítið mál.)

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þetta frekar. Ég hef lagt tvær spurningar fyrir hv. þingmann Sigurð Kára Kristjánsson og hin fyrri er þessi:

Er það rétt að þetta frumvarp sem hér er til umræðu sé komið til þingsins með formgalla sem er þess eðlis að hann stangist á við lög? Er það rétt að þetta frumvarp hafi aldrei verið afgreitt með formlegum hætti úr menntamálanefnd? Ég vænti þess, þegar hv. þingmaður svarar mér á eftir, að hann geti upplýst okkur um að niðurstaða meðferðar málsins í nefndinni hafi verið skráð í gerðarbækur nefndarinnar.

Á hinn bóginn spyr ég hv. þingmann: Er búið að skilgreina til fulls hið fjárhagslega uppgjör á milli Sinfóníuhljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins, verði þetta frumvarp að lögum? Í þessari spurningu felst ósk um upplýsingar um hver skuld Ríkisútvarpsins við Sinfóníuna er í dag.