132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[20:03]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég er á því að meginmarkmið þessa frumvarps sé fullkomlega eðlilegt og ástæða til að leiða fram þær breytingar sem þar eru boðaðar, þ.e. að skilja á milli stjórnsýslu og eftirlitsþáttar annars vegar og þjónustu og rekstrar hins vegar. Það er þróun og aðgerð sem má segja að við sjáum í samfélaginu jafnt og þétt og á við hér eins og annars staðar, að stofnun á að sjálfsögðu ekki að hafa eftirlit með sjálfri sér þannig að þetta meginmarkmið er að mínu mati alveg hárrétt.

Ég er líka sammála því sem kom fram í máli hæstv. samgönguráðherra að hér er um ákaflega mikilvægt mál að ræða. Það er mjög mikilvægt að flugumferðarstjórn og flugumsjón öll, öryggismálin séu í fullkomnu lagi og njóti fyllsta trausts. Ég hugsa að flestum sé þannig innan brjósts þegar við heyrum fréttir af því einstaka sinnum að hættulega stutt hafi verið á milli flugvéla eða einhver atvik hafi komið upp sem ógna flugöryggi, að ég tali ekki um í þau fáu skipti sem slys hafa orðið, þá verði okkur öllum illa við, enda ef slys verða í flugi þá er yfirleitt um mikið manntjón að ræða. Þessi þáttur er mjög mikilvægur fyrir okkur Íslendinga og það er mikilvægt að við höldum þessum þætti í okkar höndum.

Það hefur komið fram í umræðunni að nágrannaþjóðir okkar séu að ásælast þennan þjónustuþátt sem við sinnum nú, þ.e. stjórninni á flugumferðarsvæði Íslendinga. Mér þætti forvitnilegt að vita hvaða stöðu þessar nágrannaþjóðir okkar hafa í rauninni til að ásælast þetta hlutverk okkar og á meðan við sinnum þessum málum vel, eins og við höfum gert hingað til, hvort einhver ástæða sé til að halda að nágrannaþjóðir okkar hafi aðstöðu til, eða hvort líkur séu á því að þetta verði frá okkur tekið.

Ráðherra sagði að markmið laganna væri að hér yrði samkeppnishæf og örugg þjónusta á þessu sviði. Ég tel reyndar að hún sé örugg eins og hún hefur verið veitt fram á þennan dag. Samkeppnishæf veit ég ekki, samkeppnishæf þá við aðrar þjóðir væntanlega. En samkeppnishæf á hvaða sviðum? Er verið að tala um fjármál? Er verið að tala um gæði? Hvað er verið að tala um? Er verið að tala um þetta allt saman? Jafnframt minntist hæstv. ráðherra á að einkahlutafélag veitti meiri sveigjanleika en núverandi rekstrarform. Mig langar til að vita hvað ráðherrann á við í því efni og hvort eitthvað er í núverandi rekstrarformi sem hefur komið í veg fyrir að þjónustan hér á landi þróaðist eins og æskilegast væri. Ég get ekki séð að einkahlutafélag sé í rauninni neitt sveigjanlegra fyrir þessa starfsemi en það form sem við höfum í dag.

Það kemur fram í öðru hvoru frumvarpinu að ríkisvaldinu sé heimilt að semja við einkahlutafélagið, þ.e. í rauninni við sjálft sig af því að einkahlutafélagið á að vera í eigu ríkisins samkvæmt þessu frumvarpi, því það er bannað að selja þetta einkahlutafélag og við verðum að treysta því að svo komnu máli. Það á að hafa leyfi til að semja um þjónustu við minni flugvelli og þá er væntanlega verið að tala um flugvelli úti á landi. Ég verð að segja að þetta veldur mér nokkrum áhyggjum, umhugsunin um minni flugvelli úti á landi af því að það er svo víða verið að tala um samkeppnishæfni í þessum lagatexta og við sem búum úti á landi vitum það öll að það er mjög mikilvægt að flugvellirnir séu til taks og þeim sé vel sinnt. Þetta veldur mér ákveðnum áhyggjum.

Einnig hef ég velt því fyrir mér hvort þetta tal um samkeppnishæfni geti hugsanlega verið boð um aukinn kostnað fyrir flugrekendur. Þar sem rekstur flugvalla úti á landi stendur væntanlega ekki undir sér þar mun ríkið þurfa að koma að með styrki eða stuðning, geri ég ráð fyrir.

Ráðherra minntist á að það væri gefin heimild til þess í frumvarpinu að tekinn yrði að sér rekstur erlendis. Mig langar líka að vita hvað verið er að hugsa um í því efni. Er verið með einhver ákveðin dæmi í huga? Er þarna verið að tala um eitthvað svipað eins og þegar íslenskir flugumferðarstjórar tóku að sér reksturinn á flugvellinum í Kabúl eða hvað? Hvað er verið að opna fyrir í þessu tilefni?

Það eru mörg atriði í þessu frumvarpi sem eru mjög áhugaverð og umhugsunarverð. Það hefur komið fram í máli manna að það eru ýmis hliðstæð dæmi um rekstur flugumsjónarsvæða og flugvalla erlendis og það eigum við í samgöngunefnd eftir að skoða gaumgæfilega því ég hef heyrt misjafnar sögur af því hversu vel tekst til um reksturinn þar sem þetta hefur t.d. verið sett í hendur einkaaðila. Ég ætla að lýsa þeirri skoðun minni hér að það sé afar hæpið að þetta frumvarp náist fram fyrir þinglok í vor og ég harma það hversu seint þetta er komið fram. Það eru aðeins eftir fimm þingdagar til þingloka samkvæmt starfsáætlun þingsins og þetta er eitt af þeim málum sem þingmenn munu örugglega vilja senda út til umsagnar og fá gesti á sinn fund og skoða gaumgæfilega, því eins og hefur komið fram í máli manna í dag og ég held að okkur sé öllum ljóst þá er mjög mikilvægt að þetta fari eins vel frá okkur búið og nokkur kostur er. Og þó ég sé ekki á nokkurn hátt að vantreysta þeim sem lagt hafa hönd á plóg við að semja þetta frumvarp þá er það þó sómi okkar þingmanna að leggja sjálfir mat á það sem frá okkur fer sem lög frá Alþingi og við verðum að taka okkur þann tíma sem til þess þarf og ég tel að fimm dagar séu of fáir í það verk.

Eins og ég sagði áðan hlýtur að vera aðall svona mála að því fylgi traust og traustið fæst með því að vinna verkin vel þannig að ekki þurfi að taka þau upp og breyta jafnvel stuttu eftir að lagasetningu hefur verið lokið. Ég legg áherslu á það, virðulegi forseti, að það er slæmt hversu seint þetta er komið fram og kannski sérstaklega með tilliti til þess að það er gert ráð fyrir því að starfsemi samkvæmt þessum lögum hefjist í byrjun næsta árs og það er tiltekið í greinargerð með þessu frumvarpi að áður en starfsemi geti hafist liggi fyrir mikið verk við að meta eignir og skuldbindingar og hvar hlutirnir eigi að lenda við skiptingu niður á þessi tvö embætti, eða samkvæmt þessum tveim frumvörpum sem hér liggja fyrir. Þannig að það veitti svo sannarlega ekki af þeim tíma sem eftir er fram að áramótum til að vinna það verk. En hugsanlega er hægt að ráðast í það að einhverju leyti þó að þessu máli verði endanlega lokið á haustþingi.