132. löggjafarþing — 108. fundur,  25. apr. 2006.

Frumvörp um Ríkisútvarpið og fjölmiðla.

[13:37]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þá kröfu og þá áskorun til hv. formanns menntamálanefndar að verða við tilboði okkar um að endurnýja pólitíska sátt um Ríkisútvarpið með því að taka málið úr þinginu, vinna það betur, skoða nákvæmlega og vandvirknislega samspil frumvarpsins um Ríkisútvarpið hf. og hins nýja fjölmiðlafrumvarps sem kynnt var undir kvöld í gær, fjölmiðlafrumvarps sem sprettur upp núna eftir að tvær umræður eru að baki um hið umdeilda ríkisútvarpsfrumvarp og virðist strax varpa ljósi á fjölmarga fleiri annmarka, fjölmarga fleiri galla á því klúðri og pólitíska klastri sem frumvarpið um Ríkisútvarpið hf. er. Með þessari framgöngu er hæstv. menntamálaráðherra og með þessari framgöngu er hv. formaður menntamálanefndar að endurnýja og blása til nýs pólitísks ófriðar um fjölmiðlamálið og þá er óhætt að spyrja: Lærði ríkisstjórnin ekkert af átökunum um fjölmiðlana fyrir tveimur árum sem leiddu til þess afhroðs og þeirrar útreiðar sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar fékk á þeim tíma? Ætla menn að endurtaka ófriðinn? Ætla menn að endurtaka átökin með því að koma með handónýtt frumvarp um Ríkisútvarpið, meingallað mál sem verður að koma út úr þinginu og fara inn í nefnd að nýju og vinna aftur upp á nýtt — ástæða er til að hrósa hv. nefndarformanni fyrir það hvernig sú vinna fer af stað. Um leið vil ég skora á hv. nefndarformann að beita sér fyrir því að málið komi ekki inn aftur, skoðist næstu 3 til 4 mánuðina með frumvarpsdrögum um nýtt frumvarp um fjölmiðla og fjölmiðlalög. Það þarf að skoða vel samspil málanna og koma með boðlega lagasetningu inn á þingið næsta vetur.