132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[14:02]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um tekjuskatt, vegna gengisbreytinga.

Með frumvarpi þessu er lagt til að fyrirtækjum, sem eru með tekjufærslu gengishagnaðar að frádregnu gengistapi af hvers kyns eignum og skuldum í erlendum verðmæli, verði heimilt að draga frá tekjuskattsstofni rekstrarársins 2005 sem nemur allt að þeirri fjárhæð sem tekjuskattur hefði af óbreyttu reiknast af á árinu 2006 vegna rekstrarársins 2005, og dreifa henni jafnt á næstu þrjú rekstrarár á eftir, þ.e. á rekstrarárin 2006, 2007 og 2008.

Sterk staða krónunnar hefur á undanförnum árum óhjákvæmilega haft áhrif á afkomu útflutningsfyrirtækja, ekki síst þeirra sem eru mjög skuldsett. Annars vegar hefur hún skert tekjuhlið þeirra vegna þess að færri krónur fást fyrir sama magn afurða en áður. Hins vegar, hafi umrædd fyrirtæki skuldsett sig með erlendum lánum, er þeim skylt miðað við gildandi skattareglur að tekjufæra að fullu þann reiknaða gengishagnað sem lægra gengi myndar af erlendum lánum og greiða af honum tekjuskatt, óháð því hversu mikið er greitt af viðkomandi lánum. Vari þetta ástand í nokkurn tíma, eins og nú hefur gerst hér á landi með samfelldri styrkingu á meðalgengi krónunnar allt frá árinu 2001, kunna að skapast ákveðnir greiðsluerfiðleikar hjá skuldsettum útflutningsfyrirtækjum vegna skattalegrar meðferðar á gengishagnaði þegar líður á tímabilið. Þannig hafa fyrirtækin væntanlega verið að ganga á rekstrartöp vegna fyrri ára, jafnframt því að nýta aukinn sveigjanleika í fyrningum á umræddu tímabili. Þessi þróun er meginástæða þeirrar tillögu sem er að finna í þessu frumvarpi um heimild til frestunar á tekjufærslu gengishagnaðar umfram gengistap og þar með tekjuskattlagningu hennar á þessu ári til þriggja næstu ára.

Í frumvarpinu er þó ekki gert ráð fyrir að hérlend fjármálafyrirtæki sem falla undir eftirlitsskyldu Fjármálaeftirlitsins fái heimild til frestunar á tekjufærslu gengishagnaðar umfram gengistap vegna ársins 2005, enda er þeirri heimild fyrst og fremst ætlað að ná til þeirra rekstraraðila sem hafa fjármagnað þörf sína fyrir varanlega rekstrarfjármuni sem notaðir yrðu til öflunar tekna í atvinnurekstrinum svo og aðra fjárþörf rekstrarins vegna kaupa á aðföngum með erlendum lánum. Starfsemi fjármálafyrirtækja er í meginatriðum fólgin í því að taka við fjármagni frá einstaklingum og lögaðilum annaðhvort með innlánum eða skuldabréfaútgáfu og ávaxta þá með þeim hætti að gefa út og/eða kaupa verðbréf eða stunda annars konar fjármálastarfsemi og er því mjög frábrugðin starfsemi hefðbundinna framleiðslufyrirtækja. Af þeirri ástæðu þykir rökrétt að umrædd frestunarheimild nái ekki til fjármálafyrirtækja.

Frumvarpið felur í sér einsskiptisfrávik frá gildandi reglum. Gert er ráð fyrir að þessi mál verði á næstunni skoðuð nánar með tilliti til þess hvort breyta beri skattalegri meðferð gengishagnaðar/gengistaps til framtíðar.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.