132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Framhaldsskólar.

711. mál
[16:18]
Hlusta

Frsm. menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hinum vörpulega þingmanni Björgvini G. Sigurðssyni fyrir hlý orð í minn garð. Eins og ég sagði er ekkert sem útilokar breytingar sem gætu leitt til bóta í menntakerfinu. Við skulum samt sem áður hafa það í huga að samræmdum prófum í grunnskóla var ekki síst komið á til að bæta stöðu og hag nemenda á landsbyggðinni. Það var nefnilega þannig að á árum áður stóðu nemendur á landsbyggðinni höllum fæti gagnvart nemendum í þéttbýlinu hvað varðaði gæði kennslu og ein af röksemdunum fyrir því að taka upp samræmd próf í grunnskólum var að hvetja grunnskóla í dreifbýlinu til að auka gæði þjónustu sinnar. Það var gert með því að setja þessi próf á.

Nú er öldin önnur og kennsla í hinum dreifðu byggðum hefur batnað mjög mikið og það skyldi þó ekki vera að það sé að einhverjum hluta til vegna þess að samræmdum prófum var komið á?

Nú kann hins vegar svo að vera að ástæða sé til að endurskoða þetta kerfi. Ég útiloka ekki að það verði gert en ég fagna því hins vegar hversu vel nefndarmenn, fulltrúar allra flokka í hv. menntamálanefnd tóku í þetta mál. Ég fagna því að nú sé verið að afnema samræmd stúdentspróf. Ég held að allir sem að því máli hafa komið séu sammála þeirri breytingu sem verður að lögum núna síðar í dag.