132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Framhaldsskólar.

711. mál
[16:41]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að fjalla stuttlega um samræmdu prófin en ég lýsti því í 1. umr. um þetta mál að nú loksins gætum við fagnað því að þetta stóra baráttumál okkar í Samfylkingunni hefur náð í gegn hjá hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Eins og fram hefur komið höfum við barist gegn þessum samræmdu stúdentsprófum árum saman í Samfylkingunni og því fögnum við þessari niðurstöðu.

Menntamálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa þverskallast við að taka þetta til endurskoðunar þar til nú þegar í ljós er komið að framkvæmdin hefur verið meingölluð. Þessi próf rákust á við önnur próf innan skólanna og voru nákvæmlega á sama tíma, dæmi voru um það. Það sást langar leiðir á framkvæmdinni að þessi próf gengu ekki upp. Önnur ástæða þess að við fórum svo hart gegn þessum prófum var sú að þau auka á einsleitni framhaldsskólanna. Því hljótum við að fagna þessu.

Eins og fram hefur komið ræddi hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson þetta mál við þáv. menntamálaráðherra, Tómas Inga Olrich, í febrúar árið 2003. Hann var harður á því að halda þessu til streitu. Það er ekki lengra síðan ráðherrar sjálfstæðismanna ætluðu að halda þessum prófum til streitu. Við hljótum því að fagna sinnaskiptunum og vona að þau séu ákveðin vísbending um að Sjálfstæðisflokkurinn ætli, eftir að hafa í hátt á annan áratug stýrt menntamálaráðuneytinu, að láta af þeirri miðstýringaráráttu sem hefur einkennt störf hans.

Við horfum upp á það að framhaldsskólarnir eru að verða einsleitari. Við sjáum það m.a. í hugmyndum sem uppi hafa verið um skerðingu á námi til stúdentsprófs. Við sjáum það líka á því, eins og fram hefur komið og nefnt er í nefndaráliti, að við erum með lögbundin heiti á bóknámsbrautum.

Frú forseti. Ég verð að nefna þetta hér vegna þess að auðvitað eiga hlutirnir ekki að vera með þessum hætti. Skólakerfið má ekki vera það innmúrað að breyta þurfi lögum ef kenna á undir ákveðnum heitum á bóknámsbrautum. Kerfið verður að vera sveigjanlegra. Það er mín skoðun að það verði að skera það allt upp, taka það til ítarlegrar skoðunar og skoða verknám og annað samhliða. Skólarnir eiga að hafa möguleika á því að vinna í sveigjanlegra umhverfi þannig að þeir verði sem fjölbreyttastir og vinni gegn því mikla brottfalli sem er úr framhaldsskólunum og er mikið áhyggjuefni. Það gerum við með því að hafa fjölbreytt framboð í framhaldsskólunum.

Virðulegi forseti. Mér þótti afar ánægjulegt að heyra svör hv. formanns menntamálanefndar við fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar um samræmd lokapróf í grunnskólum þar sem hann lýsti sig jákvæðan gagnvart því að það verði hugsanlega skoðað að afnema samræmd lokapróf í grunnskólunum. Þetta þykir mér sérstaklega áhugavert vegna þess að fyrir rúmlega ári síðan stóð ég í þessum stól og spurði hæstv. menntamálaráðherra Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur hvort til greina kæmi að endurskoða framkvæmd á samræmdum prófum í grunnskólum. Svar hæstv. menntamálaráðherra var alveg skýrt og ætla ég að vitna í það sem hún sagði þá, með leyfi forseta:

„… tel ég að markmiðssetning og tilgangur með samræmdum prófum í grunnskóla sé skýr. Þá hefur reynslan á framkvæmd þessara prófa sannað gildi þeirra. Því tel ég ekki koma til greina að hætta framkvæmd prófanna.“

Ég vona að svör hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, sem jafnframt er formaður menntamálanefndar Alþingis, gefi til kynna að sinnaskipti séu líka að verða gagnvart þessum prófum hjá Sjálfstæðisflokknum í menntamálum. Ég vona svo sannarlega að hann hafi eitthvað um það að segja og að hugsanlega sé þetta vísbending um að hæstv. ráðherra sé einnig að skipta um skoðun í málinu og sé að láta af þeirri hörðu afstöðu sinni að halda samræmdum lokaprófum í grunnskóla til streitu.

Virðulegi forseti. Mér finnst áhugavert og mikilvægt að ræða hér samræmd lokapróf í grunnskólum vegna þess að fyrir ári síðan, eða 18.–19. febrúar 2005, samþykkti aðalfundur Félags grunnskólakennara ályktun þar sem lagt var til við menntamálaráðuneytið að samræmd próf í grunnskólum yrðu lögð niður. Þetta var mjög vel rökstudd ályktun. Þetta er það fólk sem starfar með grunnskólabörnum og þekkir innviði starfsins best og því er þessi ályktun afar merkileg, en í henni sagði m.a. að með vaxandi þróun í átt að einstaklingsmiðuðu námi síðustu ár og framtíðarsýn fræðsluyfirvalda í þá átt hafi samræmd próf ekki þann tilgang og vægi sem þeim var ætlað í upphafi heldur gangi í raun þvert á þá stefnu. Skólarnir eru í auknum mæli að taka upp einstaklingsmiðað nám og það er skoðun aðalfundar Félags grunnskólakennara að samræmdu prófin gangi þvert á þá stefnu. Því er þetta mikilvæg umræða. Ég tek undir þær áskoranir sem hér hafa komið fram hjá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni að hæstv. menntamálaráðherra taki þessi lokapróf í grunnskólum, samræmdu prófin, til endurskoðunar. Í þessari merkilegu ályktun Félags grunnskólakennara í fyrra var jafnframt sagt að samræmd próf hefðu þróast í þá átt að þau væru orðin markmið skólastarfs og stýrðu því í stað þess að vera uppbyggilegt mælitæki fyrir áframhaldandi starf. Það er alveg skýrt að mínu mati að þetta verður að skoða. Hæstv. menntamálaráðherra sagði í fyrra að ekki kæmi til greina að endurskoða samræmdu prófin í grunnskólunum. Reyndar hafa menntamálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins jafnframt sagt þetta um framhaldsskólann, samræmdu prófin í framhaldsskólum, en hafa skipt um skoðun núna og hlustað á þá sem þeim hafa mótmælt og í dag er verið að afnema þau með frumvarpi. Ég vona svo sannarlega að svo verði einnig hvað varðar samræmdu prófin í grunnskólunum.

Ég verð að nefna það líka áður en ég lýk máli mínu, frú forseti, að í þessari ályktun voru grunnskólakennarar einnig með verulegar efasemdir um samræmd próf í 4. og 7. bekk sem þeir töldu að legðu óeðlilegar kröfur á nemendur og gætu haft mjög neikvæð áhrif á sjálfsmynd þeirra. Þetta eru orð sem ég tel að við verðum að hlusta á. Við verðum taka þessi mál til gagngerðrar endurskoðunar innan grunnskólanna og þá auðvitað í samráði við sveitarfélögin sem fara með grunnskólann og hafa stýrt honum af myndarskap síðastliðinn áratug.

Frú forseti. Í lokin verð ég að ítreka það sem ég hef sagt að við í Samfylkingunni fögnum mjög þeirri ákvörðun að leggja af framkvæmd samræmdra stúdentsprófa í framhaldsskólum þar sem það hefur verið baráttumál okkar í mörg ár. Við vonum að þetta sé fyrsta skrefið á þeirri leið að byggja upp fjölbreytt skólakerfi og að látið verði af þessari miðstýringaráráttu Sjálfstæðisflokksins í menntamálum.