132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

almannatryggingar.

792. mál
[02:33]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Komið er til 2. umr. frumvarp til laga um breytingar á almannatryggingalögum. Nefndin hefur fjallað ítarlega um þetta frumvarp og ekki síst hefur verið fjallað um reglugerð sem sett var 1. apríl síðastliðinn. Hins vegar er það svo að allir sem komu á fund nefndarinnar lýstu sig meðmælta þeim breytingum sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Þó að frumvarpið sé vissulega lagt fram við sérstakar kringumstæður þá er það svo að frumvarpið og reglugerðin, sem var mikið rædd í nefndinni, eru að því leyti ótengd að það er hægt að samþykkja frumvarpið án þess að það hafi áhrif á reglugerðina og öfugt, þ.e. frumvarpið er með þeim hætti að það hefur ekki áhrif á reglugerðina þannig séð.

Í umræðunni hefur jafnframt verið látið að því liggja að með frumvarpinu sé verið að skjóta lagastoð undir reglugerðina sem ég ræddi hér á undan, þ.e. þá sem var sett 1. apríl síðastliðinn, en það er ekki rétt, heldur var verið að bregðast við því ástandi þegar hjartalæknar sögðu sig frá samningi við TR. Frumvarpið er sett til þess að tryggja þann skilning að greiðsluþátttöku ríkisins verði eingöngu til að dreifa þegar fyrir liggi samningar milli aðila, í þessu tilviki hjartalækna, eða lög eða reglugerðir séu til grundvallar. Jafnframt er tilgangur með frumvarpinu að tryggja sjúkratryggingarétt sjúklinga.

Eins og ég sagði hér í byrjun voru allir sem komu á fund nefndarinnar efnislega sammála frumvarpinu en þeir höfðu hins vegar margvíslegar athugasemdir við reglugerðina sem sett var 1. apríl síðastliðinn. Það fyrirkomulag sem nú er í gildi varðandi reglugerðina er eingöngu tímabundið og verður lagt niður þegar samningur hefur komist á milli aðila. Það er sem sagt óhjákvæmilegt að ræða aðeins um þessa reglugerð þó að ég hafi sagt í byrjun að ekki sé hægt að tengja þetta með þeim hætti sem hefur verið gert. Vissulega eru vankantar á reglugerðinni, hún er til óþæginda fyrir aðila og það er útlistað í nefndaráliti meiri hluta og minni hluta hv. heilbrigðis- og trygginganefndar. Hins vegar er það svo að hinn kosturinn, þ.e. að setja ekki þessa reglugerð, væri sá að almenningur greiddi reikningana að fullu án vissu um hvort þeir fengjust endurgreiddir. Það hefur verið gert áður en kostnaður við heilbrigðisþjónustu án greiðsluþátttöku ríkisins er töluvert hár. Gestir sem komu til nefndarinnar nefndu sem dæmi að viðtal, skoðun og hjartaómskoðun kostaði 28 þús. kr. Það eru töluverð útgjöld fyrir sjúklinga á einu bretti og getur verið mjög erfitt fyrir þá að bíða jafnvel einhverja mánuði eftir því að fá það endurgreitt.

Ég er þeirrar skoðunar að reglugerðin eigi að standa eins og hún er og ég tel jafnframt að ef þessir vankantar væru slípaðir væri fyrst verið að festa kerfið í sessi eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson nefndi hér áðan. Ég tel jafnframt að mikil hætta sé á því að ef við gerum breytingar á reglugerðinni í þá veru sem gagnrýnin snýr að sé verið að draga úr hvata fyrir aðila að gera nýjan samning. Þetta er því ekki heppilegt ástand sem við stöndum frammi fyrir og ekki ákjósanlegt en það verður að bregðast við því með einhverjum hætti og ég tel að það hafi verið gert með skynsamlegum hætti.

Það var fullyrt á fundum nefndarinnar frá fulltrúum lækna að þeir vilji að samningur sé á milli TR og hjartalækna en það kom jafnframt fram að þeir eru ekki sáttir við ramma samningsins. Þeir eru sáttir þannig séð við taxtann sem þeir fá greitt eftir en þeir telja að ramminn sé ekki nægilega rúmur. Þeir hafa fært gild rök fyrir aukinni aðsókn til hjartalækna og að það sé af ástæðum sem þeir ráða ekki við sjálfir. Þær ástæður eru m.a. aukin vitund almennings um hjartasjúkdóma og fjölgun aldraðra.

Samningsleysi er óeðlilegt ástand og það er erfitt að eiga við það. Hins vegar var reglugerðin sett til þess að milda áhrifin af því ástandi sem skapaðist þegar læknar sögðu sig frá samningnum eða eins og segir í nefndaráliti meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar, með leyfi forseta:

„Í þessu samhengi er vert að minna á að við sams konar aðstæður áður er sérfræðingar hafa sagt upp samningi við Tryggingastofnun ríkisins hafa sjúklingar borið kostnað vegna þjónustu viðkomandi sérfræðinga að fullu en fengið endurgreiddan hluta sjúkratryggingar þegar samningar milli viðkomandi lækna og Tryggingastofnunar hafa komist á samkvæmt sérstakri afturvirkri ákvörðun ráðherra. Með reglugerðinni er leitast við að milda áhrif ástandsins á sjúklinga og fá þeir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum endurgreiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins þegar reikningar eru lagðir fram.“

Í ljósi þessa finnst mér afstaða minni hlutans, sem kemur fram í minnihlutaáliti hv. heilbrigðis- og trygginganefndar, illskiljanleg. Minni hlutinn telur að reglugerðin eins og hún er útfærð festi í sessi tvöfalt heilbrigðiskerfi. Ég er þessu ósammála og tel að ef sú leið yrði farin að breyta reglugerðinni og laga ókosti hennar yrði fyrst hægt að tala um að verið væri að festa framkvæmdina í sessi og hætta væri á tvöföldu heilbrigðiskerfi, eins og þeir kalla það. Jafnframt tel ég ákveðna hættu á því að með því mundi samningsgerðin frestast og það ástand sem ætti að vera tímabundið væri þá orðið varanlegt og hefði afleiðingar langt út fyrir þá sérfræðinga sem hér er rætt um, þ.e. hjartalækna.

Sú leið sem var farin telst vera valfrjálst stýrikerfi. Fólki er gefinn kostur á að fá heilbrigðisþjónustu niðurgreidda fari það ákveðna leið til þess að fá þjónustuna, í þessu tilviki til heimilislæknis sem metur hvort viðkomandi þurfi að fara til sérfræðings í hjartasjúkdómum. Þetta er nokkurs konar tilvísunarkerfi en hefur verið kallað valfrjálst stýrikerfi. Það er í þá veru að ákveði viðkomandi sjúklingur að fara beint til sérfræðings án viðkomu hjá heimilislækni greiðir hann hærra verð. Í því tilviki sem reglugerðin segir til um greiðir hann fullt verð. Slík kerfi, sem sagt valfrjáls stýrikerfi, eru alþekkt víða, t.d. í Danmörku.

Það sem vekur hins vegar sérstaka athygli í þessu sambandi er að Samfylkingin hefur ályktað í þá veru að hún kjósi valfrjálst stýrikerfi. Það var á síðasta landsfundi flokksins sem haldinn var á síðasta ári.

Þannig segir í upptalningu í ályktun landsfundar Samfylkingarinnar um heilbrigðismál, með leyfi forseta:

„Heilsugæslan fyrsti viðkomustaður með valfrjálsu stýrikerfi.

Stórefla heilsugæsluna og tryggja öllum aðgang að heimilislækni og heilsugæslu.“

Mér finnst því ákveðin þversögn í því áliti sem kemur fram frá fulltrúum Samfylkingarinnar. Í áliti sínu um þetta frumvarp hafna þeir valfrjálsu stýrikerfi en landsfundur flokksins hafði sem sagt samþykkt það einungis fyrir nokkrum mánuðum. Ég skil því ekki afstöðu Samfylkingarinnar, að setja sig á móti málinu, og hef reyndar heyrt að hún muni sitja hjá. En það er mjög sérkennilegt að þeir skuli setja sig upp á móti málinu og sitja hjá af þeirri ástæðu að þeir eru ósammála útfærslu í reglugerð. Þó að reglugerðin hafi verið til umfjöllunar hér í ræðustól og innan nefndarinnar er ekki verið að greiða atkvæði um hana. Það er verið að greiða atkvæði um frumvarpið, um lögin sem allir sem komu til nefndarinnar voru sammála um að væru til bóta. Það vekur sem sagt furðu mína að fulltrúar Samfylkingarinnar setji sig upp á móti kerfi sem þeir hafa sjálfir mælt með í grundvallaratriðum.

Þessu vildi ég koma á framfæri um frumvarpið sem hér er til 2. umr. og lýsi mig meðmælta.