133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:53]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það gleður mig að Eyjólfur er að hressast hvar svo sem hann hefur farið fram úr í morgun. Ég ætla ekkert að dæma um það. Ég verð hins vegar að benda hv. þingmanni á, varðandi þá samninga sem gerðir hafa verið við eldri borgara, að það er reyndar ekki í fyrsta skipti sem slíkur samningur er gerður. Frumkvæði að þeim hafði fyrrverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, á sínum tíma.

Varðandi matarskattinn, lækkun á matvælaverði, sem hv. þingmaður kallar jöfnunaraðgerð, hana munum við eflaust ræða síðar.