133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[12:23]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér hefur verið mikil umræða um hvað ríkisstjórnin hefur verið að gera sérstaklega vel við auðmenn í samfélaginu. Ég vil minna hv. þm. Sigurjón Þórðarson á að þegar Framsóknarflokkurinn kom í ríkisstjórn árið 1995 var enginn fjármagnstekjuskattur í landinu. Tekjustofn sem er að skila okkur hátt í 20 milljörðum kr. í dag. Er það eitthvert dekur við fjármagnseigendur að núverandi ríkisstjórn hafi komið á fjármagnstekjuskatti á sínum tíma? Eru það skref í átt að auknum ójöfnuði í samfélaginu að við séum að hækka skattleysismörkin um 12 þús. kr. eða 14%, að við séum að hækka barnabætur um 25% sem sérstaklega eiga að fara til lágtekjufólks og millitekjufólks? Þetta er stefnumál okkar framsóknarmanna fyrir síðustu kosningar, að framlög til þessara fjölskyldna munu hækka um 25%. Er það í átt að ójöfnuði?