133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[14:48]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki annað en bara áréttað að þessar sálrænu aðgerðir gagnvart fólkinu á Vestfjörðum og Norðausturlandi voru afar ósanngjarnar. Að láta þetta fólk taka á sig einhverjar meintar aðgerðir til að slá á verðbólgu upp á annan milljarð kr. í þúsund milljarða dæmi.

En víkjum aftur að fjármálum ríkisins. Reyndar tel ég rangt að horfa afmarkað eins og gert er á fjármál ríkisins þegar verið er að líta til efnahagsstjórnunarinnar. Ég tel að það eigi að horfa, ekki aðeins til fjármála ríkisins, heldur einnig til fjármála sveitarfélaga og fyrirtækja og þjónustustofnana á þeirra vegum. Því hvar á þenslan sér stað núna? Hún á sér ekki stað í framkvæmdum á vegum ríkisins. Framkvæmdir á vegum ríkisins eru í algeru lágmarki. Þær hafa sjaldan eða aldrei verið minni.

Hún á sér stað í fyrirtækjum sem opinberir aðilar eiga, Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur. Hvers vegna eru ekki þessir aðilar teknir inn í heildardæmið þegar verið er að líta á efnahags- og fjármálastjórn hins opinbera í heild? Því þetta eru opinberar stofnanir þótt þær lúti stjórn. Þarna tel ég að veikleikinn hafi verið stærstur.

Hvað segir þingmaðurinn um viðskiptahallann sem við áttum og eigum við að stríða í ár? 80 milljörðum kr. meira en búist var við og langt umfram það sem er ásættanlegt og er reyndar stórhættulegt.

Hvað segir þingmaðurinn hv. Einar Oddur Kristjánsson um framhald á stóriðjuframkvæmdinni? Það eru gefnar væntingar um nýjar stóriðjuframkvæmdir á árinu 2007, 2008 og 2009. Hvaða áhrif mun það þá hafa á (Forseti hringir.) viðskiptajöfnuð, vexti, þenslu og atvinnulíf í landinu, frú forseti?