133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

5. fsp.

[15:45]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Rétt er að undirstrika það að hér er um mikilsvert og mikilvægt úrræði að ræða, annars vegar starfsendurhæfingu og síðan menntunarúrræði fyrir geðfatlaða í landinu. Hins vegar er rétt að undirstrika það að ekki er verið að skera neitt niður, hér er ekki verið að ganga á bak orða sinna. Ekki er verið að minnka þjónustu miðað við það sem samþykkt var og sagt var á sínum tíma. Og hvað var sagt þá? Þegar Fjölmennt tók að sér það hlutverk að annast ekki eingöngu fræðslumál fatlaðra heldur líka alls hópsins og taka inn geðfatlaða, þá var það samþykkt og talað um það við Fjölmennt að hún mundi sinna þessu fyrir 12 millj. kr. Það var það sem ríkisstjórnin samþykkti.

Það er alveg rétt að á sínum tíma, við lok ársins 2004, var þetta mál í rauninni í samvinnu og samráði við þrjú ráðuneyti, heilbrigðisráðuneytið, félagsmálaráðuneytið og menntamálaráðuneytið. Og til að leysa þann hnút sem málið var komið í á sínum tíma var það að frumkvæði mínu að ráðuneyti menntamála samdi við Fjölmennt um að sinna öllum menntamálum fatlaðra, hvort sem væri um geðfatlaða að ræða eða aðra. Til þeirra samninga var gengið og það er alveg ljóst að framlag til Fjölmenntar hækkar um þær 12 milljónir sem allan tímann var ljóst að það mundi hækka um til að sinna geðfötluðum. Það hefur því ekkert verið skert, það hefur ekkert verið skorið niður frá því sem áður var.