133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:25]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður heldur því fram að ég fari með staðleysur. Það sem ég sagði nákvæmlega áðan eru staðreyndir, ekki staðleysur. Ég sagði að undanfarin rúm tvö ár séum við búin að vera yfir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans, (BJJ: En kaupmátturinn?) að þá séum við búin að vera yfir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans. Það var staðreynd númer eitt.

Staðreynd númer tvö var sú að ég sagði að við værum með bullandi viðskiptahalla sem væri líklega að slaga í heimsmet. Það er staðreynd númer tvö. (Gripið fram í.) Það var það sem ég hélt hér fram.

Í þriðja lagi hélt ég því hér fram að krónan hefði sveiflast um allt að 40% á undanförnum árum. Þetta er staðreynd númer þrjú. Og að hv. þingmaður, svo ég noti nú bara hans eigin orð, skuli voga sér að koma hér upp og kalla þetta staðlausa stafi er með hreinum ólíkindum. Bullið og vitleysan sem hér kemur upp í raun og veru endurspeglar það að þessi ríkisstjórn er ekki að takast á við og horfast í augu við vandamálin eins og þau eru. (Gripið fram í: En Samfylkingin?) Staðreyndin er sú. Hv. þingmaður nefnir hér verkefni sem Samfylkingin hefur mótmælt. Virðulegi forseti. Forgangsröðun Samfylkingarinnar verður og er bara allt önnur heldur en þessarar ríkisstjórnar. Við munum taka heildrænt og með allt öðrum hætti á efnahagsmálum en þessi ríkisstjórn hefur gert. Þingmaðurinn getur dregið fram einhver tvö dæmi sem við höfum mótmælt og það er bara hárrétt. Virðulegi forseti. Það eru aðrir þættir sem við hefðum ráðist í vegna þess að við (Gripið fram í.) forgangsröðum með öðrum hætti.

Virðulegi forseti. Mig langar líka aðeins að koma hér inn á það í lok máls míns að það er með ólíkindum hvernig þessi ríkisstjórn hefur skert og skert barnabætur, vaxtabætur og aðra þætti sem snúa beint að hag barnafjölskyldna og ætlar núna að skila einhverjum nokkrum krónum til baka rétt fyrir kosningar. Þetta eru líka staðreyndir sem tala sínu máli og hv. þingmanni er vel kunnugt um þær.