133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

þjónusta á öldrunarstofnunum.

118. mál
[14:26]
Hlusta

Þórdís Sigurðardóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir að bera upp þetta mál og fagna svari hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég tel afar brýnt að hér á landi sé samræmi í þjónustu öldrunarstofnana og að ekki sé bundið láni eða óláni einstaklinga hvaða þjónustu þeir fá þar. Í 14. gr. laga um málefni aldraðra er skýrt kveðið á um hvaða þjónusta eigi að vera í boði og þar er m.a. þjónusta á þvotti tekin sérstaklega fram. Það er mikilvægt að eldri borgarar, okkar virðulegustu samborgarar, og þá sérstaklega þeir sem dvelja á öldrunarstofnunum þurfi ekki að sækja þann rétt sem þeim ber samkvæmt lögum og reglum hér á landi og þurfi ekki að berjast fyrir því á neinn hátt, svo sjálfsagt ætti það að vera að fá grunnþörfum fullnægt á viðunandi hátt á öldrunarstofnunum. Ég vil líka í þessu sambandi benda á að virkt eftirlit með öldrunarstofnunum ætti að geta komið í veg fyrir að reglum sé ekki fylgt.