133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

gatnagerðargjald.

219. mál
[14:08]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég reikna með því að þetta frumvarp verði sent til umfjöllunar í félagsmálanefnd þar sem það er félagsmálaráðherra sem mælir fyrir því og þetta heyrir undir sveitarfélögin.

Ég hef aðeins verið að blaða í frumvarpinu og hef kannski ekki neitt voðalega margar athugasemdir við það á þessari stundu, við eigum jú eftir að fjalla um þetta í nefndinni. Hins vegar finnst mér skorta á eitt í frumvarpinu og það er í raun og veru vernd, því þeir sem borga þessi gjöld fá enga tryggingu fyrir því að þeir fái eitthvað í staðinn, þ.e. að ekki sé lögð nein skylda á herðar sveitarfélögunum að peningarnir verði notaðir strax í að leggja götur í nýjum hverfum. Mér finnst þetta svolítill galli á frumvarpinu því að maður hefur stundum orðið vitni að því að töluvert langur tími getur liðið frá því að húsbyggingar hefjast og jafnvel frá því að fólk flytur inn í ný hús þangað til að sveitarfélögin taka sig til og ganga frá götunum. Ég hefði gjarnan viljað sjá í þessu litla frumvarpi að lögð væri einhvers konar skylda á herðar sveitarfélögum að þau verji þessum peningum í það að ganga frá götunum sem allra fyrst og helst ætti þetta að vera þannig að það yrði lokið við að leggja götur áður en húsbyggingar hæfust, þannig ætti það að vera í öllum fyrirmyndarsveitarfélögum. Maður sér að það er gert sums staðar og ég tel að það sé til mikillar fyrirmyndar. Annars staðar hef ég heyrt fólk kvarta yfir því að það sé látið borga þessi gjöld til sveitarfélaganna og síðan geti liðið langur tími þangað til farið er í að ganga frá götunum og þá má í raun og veru líta svo að neytendur, þ.e. þeir sem borga þessi gjöld, séu á vissan hátt að lána sveitarfélögunum peninga til óskilgreinds tíma og vita ekki nákvæmlega hvenær þeir eiga að fá það sem þeim ber, sem eru jú að sjálfsögðu viðunandi götur.

Þetta var svona stutt athugasemd af minni hálfu, virðulegi forseti, sem ég vildi koma að hér við 1. umr. En þar sem þetta fer nú til umfjöllunar í félagsmálanefnd reikna ég með því að við munum taka þennan þátt til skoðunar þar og að sjálfsögðu verður leitað umsagna um þetta frumvarp og þá ekki síst frá sveitarfélögum, en ég ætlast til að það verði líka leitað umsagna frá þeim sem hafa með hagsmuni húseigenda, húsbyggjenda að gera.