133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

skerðing lífeyrissjóða á lífeyrisgreiðslum til öryrkja.

[15:32]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er verið að brjóta gegn stjórnarskrá Íslands og ræna örorkulífeyrisþega lífeyriseign sinni um hábjartan dag. Fjórtán lífeyrissjóðir hafa sett reglur eftir á til að skerða lífeyrisgreiðslur til 2.300 öryrkja sem flestir hafa 1–2 milljónir í árstekjur og þetta hefur verið blessað með staðfestingu fjármálaráðuneytisins. Þetta hljóta að vera mistök. Ég kalla þess vegna eftir að hæstv. fjármálaráðherra stígi fram og lýsi því yfir að þessi gjörð verði afturkölluð og segi skýrt: Svona gerir maður ekki.

Hvað er það sem hér hefur verið gert? Það hefur verið ákveðið að taka að meðaltali 20 þús. kr. greiðslu af 2.300 örorkulífeyrisþegum í landinu á þeirri forsendu að þeir hafi of miklar tekjur annars staðar frá. Hversu miklar tekjur hefur þetta fólk? Flest hefur það liðlega 100 þús. kr. á mánuði sér til framfærslu eða er með á bilinu 1–2 milljónir í árstekjur. Öll vitum við að fólk sem þær tekjur hefur getur ekki haft of miklar tekjur.

Hvernig má þetta vera? Jú, það sem er gert er að eftir á eru settar reglur, eftir að þessir 2.300 öryrkjar hafa hafið töku lífeyris, um að þeir megi ekki hafa hærri fjárhæð en sem nemur neysluverðshækkunum frá þeim tíma þegar þeir urðu veikir eða urðu fyrir slysi, þ.e. að meðan við öll hin njótum hagsældarinnar og kaupmáttaraukningarinnar og velsæld okkar vex frá einu ári til annars og einum áratugs til annars á að dæma þá sem lenda á örorku til þess að vera skildir eftir með sama kaupmátt og það ár þegar þeir veiktust eða slösuðust. Vill einhver í þessum sal þurfa að lifa af kaupmættinum sem við höfðum árið 1975? Vill einhver reyna að taka þátt í samfélaginu árið 2006, taka þátt í því sem hver og ein fjölskylda þarf að taka þátt í, með kaupmættinum sem hann hafði árið 1975?

Hér er, virðulegur forseti, ef þessi regla væri fest, þó ekki væri nema til framtíðar fyrir þá lífeyrisþega sem eftir eiga að koma, í raun og veru verið að vega gegn hugsjóninni um almannatryggingar og lífeyriskerfið, vegna þess að lífeyrissjóðirnir voru þeim sem urðu fyrir slysum og sjúkdómum í raun og veru vonin um það að komast út úr fátæktargildrunni sem Tryggingastofnun ríkisins og almannatryggingalöggjöfin er. Sá helmingur öryrkja sem er svo heppinn að hafa einhvern lífeyrissjóð, þeir áttu að vera hinir hólpnu, en með þessum nýju reglum mun það heyra sögunni til. Þeir lífeyrissjóðir sem eru að gera þetta gera það með tilvísun til erfiðrar stöðu sinnar. Ég vek athygli á því að stærsti sjóðurinn, Gildi, jók eignir sínar á síðasta ári um 36 milljarða kr., söguleg ávöxtun úr 145 milljörðum í 181 milljarð. Ekki var afkoman verri en það.

Um síðustu áramót var ákveðið að auka réttindi sjóðfélaga almennt meðan réttindi öryrkja eru skert. Virðulegur forseti. Það alvarlegasta er að hér er verið að skerða eignarréttindi 2.300 öryrkja sem eiga þessi lífeyrisréttindi. Það er brot á eignarréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar og það er yfirlýst af hálfu ríkisstjórnar Íslands, og hún hefur fyrir því lögfræðiálit, að það sé hæpið að ganga gegn þeim eignarréttarákvæðum. Þess vegna hlýtur staðfesting hæstv. fjármálaráðherra á reglugerðum lífeyrissjóðanna að vera mistök því að staðfestingin gengur gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar og þeim lögfræðiálitum sem ríkisstjórnin sjálf styðst við. Fjármálaráðuneytið var ranglega upplýst um að áhrifin af þessum breytingum væru óveruleg. Það getur ekki verið óverulegt að svipta 2.300 fátæka Íslendinga greiðslum sínum úr lífeyrissjóði. Ég kalla þess vegna eftir því að hæstv. (Forseti hringir.) fjármálaráðherra lýsi því yfir að staðfestingin verði afturkölluð.