133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

skerðing lífeyrissjóða á lífeyrisgreiðslum til öryrkja.

[15:40]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Helga Hjörvars um að verið er að brjóta á lífeyrisþegum, örorkulífeyrisþegum, með þeim gjörðum sem lífeyrissjóðirnir standa fyrir um þessar mundir. Með ósæmilegum hætti er verið að skerða lífeyrisgreiðslur til örorkulífeyrisþega og ef svo heldur fram sem horfir, að ekki verði gerðar breytingar á samþykktum lífeyrissjóðanna, myndast neikvæður spírall hvað varðar greiðslur til öryrkja. Það myndast skerðing hjá almannatryggingum, greiðslum Tryggingastofnunar ríkisins, það verður víxlverkun á milli lífeyrissjóðanna og almannatryggingakerfisins þannig að tekjur lífeyrisþeganna lækka. Skerðingin mun halda áfram næstu þrjú árin ef þessar reglur verða ekki afturkallaðar. Mér þykir miður, hæstv. forseti, að hvert málið á fætur öðru í málefnum örorkulífeyrisþega skuli þurfa að fara fyrir gerðardóm eða Hæstarétt til að fá úrskurð og lausn fyrir þessa hópa. Það er óþolandi að búa við slíkar aðstæður og þessu verður að linna.