133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:39]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég dáist að elju hv. þingmanns að standa í því að reyna að svara fyrir Framsóknarflokkinn linnulaust í þessari umræðu. Það er ekki öfundsvert hlutskipti og hv. þingmaður á heiður skilið fyrir úthaldið í þeim efnum, það er aðdáunarvert. Mér finnst hins vegar að hv. þingmaður ætti, af því að nú liggur fyrir að hv. þingmaður hyggst ekki bjóða sig fram á nýjan leik að vori, að eyða síðustu mánuðum sínum á Alþingi í eitthvað uppbyggilegra en það að reyna að verja hlut Framsóknarflokksins í þessum málum, að láta frekar liggja vel á sér og ræða um eitthvað skemmtilegt.

Varðandi þetta með Símann og síðan Ríkisútvarpið, að þar sé ólíku saman að jafna og það sé engin hætta á að sú saga endurtaki sig. Ja, hver veit það? Er ekki verið að gera það sem gæti átt eftir að reynast mjög afdrifaríkt og misráðið, að setja Ríkisútvarpið í söluumbúðir? Það er verið að því, það er verið að setja það í söluumbúðir. Það er t.d. verið að opna möguleika fyrir einkavæðingu tiltekinna hluta og þátta starfseminnar út um bakdyrnar. Alvaldurinn, útvarpsstjórinn, fær mikið svigrúm til að úthýsa starfsemi. Hvað gæti orðið eftir á Ríkisútvarpinu ef vindar blésu þannig á þeim bæ, kannski með stuðningi menntamálaráðherra sem lýsti velþóknun sinni og blessun yfir því að starfsemi væri úthýst og selt undan fyrirtækinu þetta og hitt þannig að eftir stæði að lokum kannski bara gamla gufan tiltölulega berstrípuð? Menn gætu sagt: Ja, þetta er Ríkisútvarpið, sem væri kannski ekki orðið neitt neitt.

Það geta margar hættur legið í þessu og það er opnað á þær allar með því að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi, að setja það í þessar söluumbúðir. Þar í liggur hin mikla ábyrgð Framsóknar hvað sem um málið má segja að öðru leyti.